Í síðustu viku fengu veiðar danskra skipa úr eystri hluta þorskstofnsins í Eystrasalti MSC vottun sem sjálfbærar og því jafnframt lýst yfir að veiðunum væri vel stjórnað.
Þetta kemur mörgum á óvart því árum saman vöruðu vísindamenn við því að stofninn væri að hruni kominn vegna ofveiði.
Fyrir 25 árum var gósentími í þorskveiðum í Eystrasalti og byggðist efnahagur íbúa á dönsku eyjunni Borgundarhólmi að verulegu leyti á þorskinum, enda er eyjan staðsett á fiskimiðunum miðjum. Síðan fór þorskstofninum hrakandi ár frá ári og náði hann lágmarki fyrir sjö árum. Á allra síðustu árum hefur verið gripið til ýmissa verndunaraðgerða sem greinilega hafa gert sitt gagn.