Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega þeim ásetningi sjávarútvegsráðherra að við setningu nýrra aflahlutdeilda í úthafsrækju verði eldri aflahlutdeildir látnar ráða að 7/10 hlutum en veiðireynsla síðustu þriggja ára að 3/10 hlutum. Nær væri að hlutföllin væru þveröfug ef nauðsynlegt er talið að fella slíkan óskiljanlegan Salómonsdóm,“ segir í ályktun ráðsins.

Og áfram segir: ,,Með þessari ákvörðun er fótunum kippt undan rækjuvinnslu í Ísafjarðarbæ, en hún hefur verið vaxtarbroddur undanfarin ár og ljós punktur í þeim efnahagsörðugleikum sem byggðir Ísafjarðarbæjar hafa glímt við um langa hríð. Að óbreyttu getur þetta leitt til þess að 100 manns, eða meir en 1% íbúa á Vestfjörðum muni missa vinnuna.“

Loks segir: ,,Sú niðurrifsstefna sem þarna er boðuð gagnvart viðkvæmu efnahagssvæði á Vestfjörðum getur í engu talist samræmast því sem landsbyggðarfólk taldi sig lesa úr stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Því verður ekki trúað að þessi fordæmalausa leið verði farin í raun og veru og bindum við traust okkar við og skorum á ríkisstjórnina að falla frá þessari ákvörðun.“