Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir agaleysi hafa ríkt í veiðistjórnun á þorski og að engar forsendur séu fyrir kvótaaukningu nú á miðju fiskveiðiári. Þetta kemur fram í viðtali við hann í nýjustu Fiskifréttum.
Jóhann bendir á að aflinn á árinu 2009 hafi farið upp í 180 þúsund tonn sem sé 27% veiðihlutfall. Þetta hafi stafað af 30 þúsund tonna kvótaaukningu í upphaf ársins og aukinni sókn á síðustu mánuðum þess sem jafnframt voru fyrstu mánuðir nýs fiskveiðiárs. Af þessum ástæðum eigi menn lítið eftir af aflaheimildum sem aftur auki þrýstinginn á kvótaaukningu.
,,Hafrannsóknastofnunin hefur veitt ráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár á grundvelli mótaðrar stefnu og það er engin skynsemi að breyta út af henni á miðju fiskveiðiári. Þorskurinn er langlíf skepna,” segir Jóhann.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.