Þorskafli jókst um 36% fyrstu tvo mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Misjafnt er eftir landsvæðum hvernig þessi aukning skiptist. Mest jókst aflinn hlutfallslega á Suðurlandi og Suðurnesjum en lítilsháttar samdráttur varð á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.
Í heild lönduðu íslensk skip um 35 þúsund tonnum af þorski sem veiddur var á Íslandsmiðum í janúar og febrúar á þessu ári samkvæmt nýbirtum tölum á vef Hagstofu Íslands. Á sama tíma í fyrra var landað tæpum 26 þúsund tonnum.
Mestum afla var landað á Suðurnesjum eða 8.153 tonnum. Á sama tíma í fyrra var landað þar 4.636 tonnum. Aukningin er 76%. Næstmest var landað á Vesturlandi eða 8.091 tonni, 36% meira en á sama tíma í fyrra. Rétt er að geta þess að löndunarsvæði endurspeglar ekki hvar þorskurinn er unninn. Stórum hluta þorskaflans er ekið frá löndunarstað til vinnslu á öðrum landssvæðum.
Athygli vekur að nærri þrefalt meira af þorski var landað á Suðurlandi í janúar og febrúar í ár miðað við sömu mánuði fyrra. Þorskaflinn þar fór úr 765 tonnum í 2.011 tonn.
Á tímabilinu fóru um 1.227 tonn af þorski til erlendra hafna miðað við 817 tonn árið áður. Aukningin þar er um 50%.
Aukning í löndun þorsks á öðrum svæðum var: Vestfirðir (43%), höfuðborgarsvæðið (28%) og Austurland (5%).