Nú liggur fyrir lokaskýrsla um rannsókn á bandormssýkingu í ufsa hér við land sem BioPol ehf. stóð að í samvinnu við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum.
Áhöfnin á frystitogaranum Arnari HU sá um að safna ufsum til rannsóknarinnar á tímabilinu september 2011 til ársloka 2012.
Af þeim 696 fiskum sem bárust til rannsóknar reyndust 137 vera smitaðir eða tæplega 20%. Mikill munur var á smittíðni eftir svæðum en hæst var hún á suðursvæði þar sem 54% fiska reyndust smitaðir. Á austursvæði var smittíðnin 35%, á vestursvæði 22%, en langlægst var smitið á norðursvæði eða aðeins tæplega 1%.
Ekkert benti til þess að sýkingin ylli vanþrifum eða afföllum í ufsastofninum. Málið snýst fyrst og fremst um hugsanlegt tjón á afurðum. Í því sambandi ber þó að hafa sterklega í huga að ormar voru miklum mun algengari á eða innan um innri líffæri en fastir í þunnildum. Ef litið er á einstök svæði kemur í ljós að 13% fiska á suðursvæði, 5% á vestursvæði, 2% á austursvæði og enginn á norðursvæði, höfðu ormasýkingar í þunnildum.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.