Íslendingar hafa haft orð á sér fyrir örugga afhendingu fiskafurða alla daga ársins. Það orðspor hefur beðið hnekki, segir Friðleifur Friðleifsson sölustjóri hjá Iceland Seafood í viðtali við Fiskifréttir.

„Við höfum getað barið okkur á brjóst og sagst geta útvegað fiskafurðir 365 daga á ári. Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar gengi út á að nýta auðlindina, sérstaklega bolfiskinn, árið um kring. Við höfum sannfært kaupendur okkar um að við værum fremri keppinautum okkar í því að útvega fisk jafnt og þétt inn á markaðinn," segir Friðleifur.

"Núna er sú saga ekki eins trúverðug og ekki víst að við getum endurheimt þetta orðspor í einum hvelli. Þótt fastir viðskiptavinir okkar byrji aftur á því að kaupa íslenskan fisk af því að gæðin eru mikil og þeir vilji halda tengslum við seljendur á Íslandi kunna þeir að líta svo á að þeir verði að vera meira á varðbergi í viðskiptum við okkur þegar kemur að öryggi í afhendingu. Þetta gæti orðið stóra breytingin sem af verkfallinu hlytist.“

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.