Lokið er árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar á rækju á grunnslóð vestan- og norðanlands. Könnuð voru sex svæði: Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi og Axarfjörður. Eitt helsta markmið leiðangursins var að meta stofnstærð rækju á þessum svæðum. Að auki var allur aukaafli mældur.
Í Skjálfanda var stofnvísitala rækju svipuð og haustið 2011, en þá hafði stofnvísitalan hækkað töluvert frá fyrri árum og er nú yfir meðallagi. Hlutfall ungrækju var lægra en í fyrra og hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að opnað verði fyrir rækjuveiðar í Skjálfanda með 400 tonna aflamarki.
Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist langt undir meðallagi. Útbreiðsla rækjunnar takmarkaðist við inndjúpið. Hlutfall hrognarækju hefur lækkað verulega frá því haustið 2011. Mikið var af þorski og ýsu á svæðinu fannst fiskur inn að rækjusvæðunum í inndjúpinu. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að engar rækjuveiðar verði heimilaðar í Ísafjarðardjúpi að sinni.
Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi en var hærri en haustið 2011. Líkt og verið hefur undanfarin ár var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Magn þorsks og ýsu var svipað og í fyrra, en þó mældist meira af 1 árs fiski. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 450 tonnum af rækju fiskveiðiárið 2012/2013.
Stofnvísitala rækju í Axarfirði hækkaði töluvert frá fyrri árum en stofninn hefur verið í lægð og ekkert hefur verið veitt úr honum síðan 2002. Mikið var af ungrækju og þar sem rækjan er mjög smá í Axarfirði hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til að ekki verði heimilaðar veiðar á svæðinu.
Niðurstöður leiðangursins sýndu að litlar breytingar voru á stærð rækjustofna í Húnaflóa og Skagafirði og eru þeir enn í lægð.
Sjá fréttatilkynningu og skýringarmyndir á vef Hafr ó.