Grænlenska skipið Polar Amaroq landar í dag um 750 tonnum af norsk-íslenskri síld í Noregi hjá Norway Pelagic Lødingen. Samtök norskra útvegsmanna hafa sent norska sjávarútvegsráðuneytinu fyrirspurn um hvort þessi löndun samrýmist lögum og reglum.

Þetta kemur fram í frétt á vef samtaka norskra útvegsmanna og  fyrirsögnin er: Ulovlig landing i Norge? Þar segir einnig að samkvæmt norskum reglum sé erlendum skipum bannað að landa fiski í Noregi sem veiddur er úr deilistofni ef ekki sé fyrir hendi fiskveiðisamningur milli Noregs og viðkomandi ríkis.