Öllum í áhöfn Helgu Maríu AK 16, ísfisktogara HB Granda, alls 22 menn, verður sagt upp störfum. Uppsagnarbréfin eru á leiðinni og verður uppsagnarferlinu lokið fyrir jól, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fiskifrétta. Helga María hefur að miklu leyti verið á karfaveiðum en HB Grandi hyggst hætta karfavinnslu og frysta þess í stað karfa í frystitogurum fyrirtækisins.
Áhöfnin hefur verið upplýst um ákvörðun HB Granda og samkvæmt heimildum Fiskifrétta eru menn mjög slegnir. Margir hafa verið árafjölda í áhöfn skipsins. Í skilaboðum frá stjórnendum HB Granda til áhafnarinnar er látið að því liggja að samstarfinu sé þar með ekki lokið. Uppsagnirnar séu til þess ætlaðar að losa um samninga svo hægt sé að færa menn á milli skipa.
HB Grandi hefur í gegnum tíðina haft mikinn karfakvóta að moða úr, eða tæp 12.000 tonn í gullkarfa. 2.800 tonn í djúpkarfa og 580 tonn í úthafskarfa. Mikil vinnsla hefur verið á karfa í Norðurgarði en afkoman ekki verið sem skyldi og hugsanlega tap á vinnslunni, samkvæmt heimildum Fiskifrétta. Af þeim sökum hefur dregið úr karfaveiðum Helgu Maríu að undanförnu. HB Grandi telji því hagkvæmara að láta frystitogarana veiða meira af karfa sem verði seldur frystur úr landi.
Samkvæmt heimildum leiðir þessi breyting þó ekki til uppsagna í fiskvinnslunni í Norðurgarði þar sem aukin umsvif verði í þorsk- og ufsavinnslu í stað karfavinnslunnar. HB Grandi tilkynnti um lokun bolfiskvinnslu sinnar á Vopnafirði fyrr í vikunni þar sem ellefu manns missa vinnuna.
Helga María var smíðuð í Noregi 1988 og var breytt í ísfisktogara 2013.
Uppsagnir á Akranesi og Vopnafirði
Eins og komið hefur fram var fjórum starfsmönnum fiskimjölsverksmiðju HB Granda sagt upp í vikunni, auk þess sem ellefu starfsmönnum HB Granda í frystihúsi félagsins á Vopnafirði var sagt upp.
Þetta kom fram í frétt á heimasíðu AFLs Starfsgreinafélags.
Þar segir jafnframt: „Áður hafði þremur starfsmönnum verið sagt upp og loks eru tveir starfsmenn að hætta af öðrum ástæðum og verður ekki ráðið í stað þeirra. Fækkun starfa á Vopnafirði eru því 16 störf á stuttum tíma sem myndi jafngilda því að um 5.600 störf hefðu glatast á höfuðborgarsvæðinu.“ Samkvæmt því sem AFL kemst næst eru flestir þeirra sem sagt var upp, af erlendum uppruna og búsettir á Bakkafirði en þar hefur allri fiskvinnslu verið hætt og íbúar hafa sótt vinnu til Vopnafjarðar. Ennfremur herma fréttir að frekari uppbyggingu frystihússins á Vopnafirði sé hætt, segir í frétt AFls.
Bolfiskvinnslan var tekin í gagnið fyrir síðustu áramót og var meðal annars ætlað að minnka árstíðabundna sveiflu í starfseminni á Vopnafirði. Þá um veturinn sagði Magnús Róbertsson, vinnslustjóri, að bolfiskvinnslan hefði bjargað atvinnulífinu á staðnum.
Tilkynning HB Granda vegna fréttaflutnings
Vegna frétta af uppsögnum starfsmanna HB Granda á Vopnafirði sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem félagið vill taka eftirfarandi fram:
„HB Grandi hefur í mörg ár rekið öfluga uppsjávarvinnslu á Vopnafirði þar sem unnið er á vöktum allan sólarhringinn á meðan vertíð stendur. Fastráðnir starfsmenn uppsjávarfrystihússins á Vopnafirði eru eftir uppsagnir 60 og hafa verið 60-65 í gegnum árin. Tíminn á milli vertíða hefur verið nýttur í ýmiskonar verkefni. Árið 2016 var tekin ákvörðun um að byggja upp bolfiskvinnslu á Vopnafirði til að starfrækja á milli vertíða og hófst vinnsla í henni eftir sjómannaverkfallið í mars 2017. Rekstur bolfiskvinnslu hefur allmennt ekki gengið sem skyldi og hefur því verið ákveðið að endurskipuleggja starfssemi á Vopnafirði á milli vertíða. Engin áform eru um að draga úr starfsemi HB Granda á Vopnafirði en þar er í dag rekið öflugt uppsjávarfrystihús og fiskimjölsverksmiðja. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvernig best er að haga því, en engin ákvörðun liggur fyrir í þeim efnum.“
Ekki náðist í Guðmund Kristjánsson, forstjóra HB Granda, við vinnslu fréttarinnar.