Sterkari fiskstofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða á undanförnum áratugum hafa leitt til 33% minnkunar í olíunotkun við veiðar íslenska skipaflotans.

Þetta kom fram í máli Svavars Svavarssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar HB Granda, sem hélt erindi í gærmorgun á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem var í ár helgaður loftslagsmálum.

Erindið fjallaði um verkefnið Hrein virðiskeðja sjávarútvegs, en sagt var frá umhverfisstjórnunarkerfi sem HB Grandi hefur verið með í þróun og tekið í notkun í þeim tilgangi að minnka umhverfisáhrif félagsins. Svavar talaði um sameiningarsögu HB Granda allt frá árinu 1985 og mikilli fækkun í skipastól félagsins í kjölfarið, þrátt fyrir nánast þreföldun veiðiheimilda. Endurnýjun skipaflota HB Granda er yfirstandandi með afkastameiri og sparneytnari skipum.

Svavar lagði sérstaka áherslu á að markviss stefna stjórnvalda í málefnum sjávarútvegs og áframhaldandi gróska og nýsköpun í greininni séu þeir áhrifaþættir sem best tryggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði náð.