Olíublautir fuglar hafa undanfarnar vikur verið að finnast dauðir í fjörum í Vestmannaeyjum og við suðurströnd landsins, aðallega í Reynisfjöru og Víkurfjöru en einnig hafa fundist fuglar í Eyrarbakkafjöru og við Þorlákshöfn. Í Vestmannaeyjum hafa þeir verið að finnast við Brimurð og svo við höfnina undir Löngunni og undir Flakkaranum.

Sumir þeirra eru með mjög þykka olíu á sér sem bendir til þess að þetta sé svartolía, og nú hafa rannsóknir staðfest að svo sé.

„Það er alveg sams konar tegund af olíu í þeim sýnum sem hafa verið tekin þannig að það virðist vera sama uppsprettan sem veldur því að það eru að finnast olíublautir fuglar bæði í Vestmannaeyjum og við suðurströndina.“

Olíumengun hefur einnig verið áberandi í Vestmannaeyjahöfn undanfarið, en Sigurrós segir ekkert benda til þess að mengunin þar tengist olíublautu fuglunum enda sé þar ekki um svartolíu að ræða.

„Hún virðist vera að koma einhvers staðar annars staðar frá,“ segir hún.

Svartolíu hefur að mestu leyti verið úthýst úr skipaflotanum, þannig að nú eru það ekki önnur skip en stóru skemmtiferðaskipin og millilandaskip sem nota svartolíu. Olíuleki frá skipum ætti þó að sjást greinilega á yfirborði sjávar, sérstaklega ef hann væri mikill. Bæði myndu almennir sjófarendur taka eftir því og svo myndi Landhelgisgæslan sjá slíka yfirborðsmengun þegar flogið er yfir.

„Þetta væri olía sem væri á yfirborðinu og þá væri einhver búinn að verða var við hana. Landhelgisgæslan hefur ekkert séð í flugi og sjófarendur væru væntanlega búnir að láta vita.“

Skipsflak að tærast upp

Annar möguleiki er síðan að olían komi úr skipsflaki einhvers staðar á hafsbotni. Sá möguleiki þykir líklegri eins og málin standa nú.

„Við erum að skoða þann möguleika frekar hvort eitthvert skip sé að tærast upp eða brotna niður. Það séu þá að koma skot eins og frá El Grillo í Seyðisfirði þar sem olíudropar koma upp, reyndar mest síðsumars, en þetta er einn möguleikinn. Þá er líka möguleiki að olían komi ekkert upp á yfirborðið en þegar fuglar eru að kafa ofan í vatnsflötinn að leita að æti þá fari þeir ofan í olíuna og verði þess vegna olíublautir. En þetta eru allt kenningar, ekki eitthvað sem við vitum nákvæmlega.“

Umhverfisstofnun sé því tekin að kanna hvar uppruna lekans sé að finna og í því sambandi sé verið að skoða hafstraumana undan suðurströndinni.

„Við erum í sambandi við haffræðing sem ætlar að kortleggja þetta betur fyrir okkur. Ef það finnst svo einhver líklegur sökudólgur þá þarf að finna út úr því hvernig er hægt að sannreyna það í kjölfarið.“

Langvíum hjálpað að komast aftur á kreik eftir olíuhremmingar. MYND/Erpur Snær Hansen
Langvíum hjálpað að komast aftur á kreik eftir olíuhremmingar. MYND/Erpur Snær Hansen

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, hefur fylgst með fjörum í Eyjum og við suðurströnd landsins í leit að olíublautum fuglum.

„Þeir fuglar sem lenda í þessu eru yfirleitt ekki mjög langt frá landi, alla vega ekki á þessum árstíma. Þetta eru strandfuglar eins og æður og skarfar, en svo höfum við líka fengið talsvert af langvíum sem eru komnar upp að vörpunum. Þær koma ekki upp í fjöru nema eitthvað bjáti á.“

Erpur segist ætla að leggja það til við Umhverfisstofnun að mánaðarlega verði farið um Landeyjasand, allur fugl hirtur og sýni tekin. Náttúrustofa Suðurlands myndi leggja til vinnu.

„Svona strandvöktun er víða gerð erlendis og hefur staðið í marga áratugi. Verið er að fylgjast með hlutfalli og magni af olíudauðum fuglum. Ef þetta er gert um árabil þá ertu kominn með grunninn til að meta hvort ástandið hérlendis sé að aukast eða minnka og þá einnig í samanburði við erlendar niðurstöður. Í Ermarsundi hefur olíumengun t.d. verið á niðurleið í áratugi. Einnig yrði þetta viðmiðunargrunnur til mats á mengunaraukningu samhliða stóraukinni skipaumferð sem fylgdi hugsanlegri tilkomu umskipunarhafna hérlendis.

Umgengni ábótavant

„Mér skilst nú á mörgum að höfnin hafi nú ekki alltaf verið brákarlaus. Þannig var nú umgengnin við þetta víðast hvar,“ segir Erpur.

Hann bendir á að Vestmannaeyjahöfn er löng og mjó og svo myndi Friðarhöfn eins konar té í endanum, þannig að þar safnast of auðveldlega einhver óþverri ef menn gæta ekki að sér.

„Líklega er þetta mikið til smurolía sem er mest áberandi innanhafnar. Þetta lekur hægt en bátarnir sitja lengi og búa til þessa brák. Maður hefur t.d. séð af loftmyndum áberandi brák úr dæluskipi sem vinnur við Landeyjarhöfn. Þeir hafa auðsjáanlega verið að leka við skutinn.“

Annað vandamál sé síðan niðurföllin á bryggjunum í Eyju, sem að sögn Erps eru tengd beint við höfnina í stað þess að leggja þau inn í lagnakerfi þar sem hægt væri að grípa olíuna í gildrur.

„Það er bagalegt því þetta er talsverður flötur og auðvitað kemur alltaf eitthvað af bryggjunum. Aðallega held ég að þarna megi bæta umgengni töluvert. Margt smátt gerir eitt stórt. Mér skilst að setja eigi upp myndavélar við höfnina, en í raun er þetta spurning um hugarfarsbreytingu gagnvart umgengnisvenjum á þessu sameiginlega umhverfi okkar."

Fréttin birtist í Fiskifréttum 30. apríl.