Niðurstöður greiningar á reki olíu við suðurströnd Íslands benda til þess að að uppruni mengunarinnar sé að öllum líkindum á hafsvæði innan við 12 sjómílur austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar.

Líklegt þykir að um sé að ræða olíu sem lekur úr skipsflaki á hafsbotni. Ekki reyndist þó mögulegt að segja nákvæmlega til um hvaðan mengunin kom.

Hafrannsóknastofnun segir frá þessu á vef sínum:

Að beiðni Umhverfisstofnunar var farið í greiningu á reki olíu við suðurströndina á tímabilinu 2020-2022. Ástæðan var talsverður fjöldi olíublautra fugla sem fundist höfðu víðsvegar við strönd suðurlands og í Vestmannaeyjum á þessu tímabilinu. Notuð voru tölvulíkön frá Veðurstofunni og Copernicus-gagnaþjónustu ESB til að greina áhrif hafstrauma, vinda og sjávaralda á rek agna á yfirborði. Bæði var rekið reiknað aftur í tíma út frá þeim stöðum þar sem olíublautir fuglar fundust, og hermt eftir reki fram í tímann frá mismunandi möguleikum hvað varðar staðsetningu uppruna olíumengunar.

Hafstraumar á svæðinu eru tiltölulega breytilegir en í hvassviðri ræðst rek olíu á yfirborði einkum af vindáttum.

Nánari upplýsingar um greininguna má finna í skýrslunni „Olíublautir fuglar við suðurströndina 2020-2022: Greining reks olíu á yfirborði sjávar og mögulegs uppruna mengunar“. Hlekkur á greinina.