Í djúphafinu er óhemjulegt magn af fiskum, skeldýrum og kolkrabbategundum sem eru vannýtt auðlind. Vakin er athygli á þessu á vef danska tækniháskólans.
Á síðasta ári sendi alþjóðlegur vísindahópur frá sér skýrslu þar sem fram kemur að á um 200 til 1000 metra dýpi, þar sem dagsbirtu gætir lítt eða ekki, sé svo mikið af vannýttum fiski að það samsvari um 90% af samanlögðum fiskilífmassa jarðarinnar. Algengustu fiskarnir þarna eru svokallaðar laxsíldir (Myctophiids). Vitað er um 245 tegundir laxsílda en þessir fiskar eru ekki stærri en 10 til 15 sentímetrar á lengd.
Þarna er gríðarleg uppspretta af prótíni og omega-3 fitusýrum sem nýta mætti til að brauðfæða jarðarbúa. Vísindamenn segja að gæta þurfi mikillar varúðar við nýtingu þessara stofna. Rannsóknir vanti á veiðiþoli þeirra og hlutverki í lífríki hafsins. Auk þess þurfi menn að koma sér saman um stjórn veiða, verði þessir fiskar nýttir í framtíðinni, þar sem megnið af þeim sé á alþjóðlegu hafsvæði.