„Það hafa verið framkvæmdar rannsóknir og að þær sýna að mengun í fiski er lægri en við óttuðumst,“ segir Kristín Kröyer, sérfræðingur á sviði umhverfisgæða Umhverfisstofnunar um ástandið á fiski í Eiðisvatni á Langanesi.

Eins og komð hefur fram er mjög mikil mengun í jörðu á Heiðarfjalli á Langanesi eftir veru ratsjárstöðvar Bandaríkjamanna þar á síðustu öld.

Úr rannsóknarferð á Heiðarfjall á vegum Umhverfisstofnunar í ágúst 2023. MYND/UMHVERFISSTOFNUN
Úr rannsóknarferð á Heiðarfjall á vegum Umhverfisstofnunar í ágúst 2023. MYND/UMHVERFISSTOFNUN

Í Fiskifréttum í apríl í fyrra sagði Kristín að rannsókn norsku stofnunarinnar Norwegian Geotechnical Institute á mengun við Heiðarfjall staðfestu það sem landeigendur hafi sagt um að þar sé mikil PCB mengun í jarðveginum og vatninu. Matvælastofnun hafi sagt landeigendum að óráðlegt væri að borða fisk og egg á þessu svæði.

Ekki mælt með neyslu eggja

Á þessum tíma höfðu hvorki fiskarnir sjálfir né egg verið rannsökuð en síðan hefur verið úr því bætt á vegum MAST og Umhverfisstofnunar að sögn Almars Marinóssonar, umhverfisfulltrúa Langanesbyggðar.

„Þessar stofnanir hafa farið í mælingar á nokkrum þáttum í fiski, æðareggjum og sauðfé sem dæmi. Sýna niðurstöður þeirra að ekki sé mælt með neyslu eggjanna þar sem gildi voru yfir viðmiðunarmörkum í eggjunum en langt undir í öðru. Því er ekki ástæða til að vara við neyslu á öðru,“ segir Almar.

Framhaldið óráðið en frekari rannsóknir ekki útilokaðar

Að sögn Almars er beðið samantektar á niðurstöðum rannsókna og vonandi fylgi aðgerðaáætlun í kjölfarið. „Einnig eru fleiri rannsóknir ekki útilokaðar eða búið að taka ákvarðanir um þær,“ segir hann. Er það liggi fyrir sé ljóst að Langanesbyggð muni hafa skoðun á framgangi málsins. Óljóst er hins vegar um framhaldið. 

„Síðustu skýrslu frá ráðgjöfunum er að vænta í næsta mánuði. Eftir það er því verkefni sem stofnuninni var falið af ráðuneytinu lokið. Hvort ráðuneytið feli okkur áframhaldandi verkefni hef ég ekki fengið upplýsingar um,“ segir Kristín Kröyer.

Í áðurnefndri frétt í Fiskifréttum í apríl í fyrra var einnig rifjað upp að lítill hópur manna sem á áttunda áratug síðustu aldar keyptu jarðirnar Eiði og Ártún á Langanesi hafi í gegn um tíðina árangurslaust barist fyrir því á að Heiðarfjall yrði hreinsað og þeim bættur skaði vegna mikillar mengunar í jarðvegi.