Niðurstöður rannsókna norsku stofnunarinnar Norwegian Geotechnical Institute á mengun við Heiðarfjall á Langanesi eru kynntar í drögum að svartri skýrslu til Umhverfisstofnunar.

„Þetta er staðfesting á því sem landeigendur eru búnir að vera að tala um, að það er mikil PCB mengun í jarðveginum og vatninu,“ segir Kristín Kröyer, sérfræðingur á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun.

Eins og ítrekað hefur komið fram í gegnum tíðina hefur lítill hópur manna sem á áttunda áratug síðustu aldar keyptu jarðirnar Eiði og Ártún á Langanesi árangurslaust barist fyrir því á mörgum vígstöðvum að Heiðarfjall yrði hreinsað og þeim bættur skaði vegna mikillar mengunar í jarðvegi. Mengunin stafar frá stórri ratsjárstöð sem Bandaríkjaher starfrækti á fjallinu 1957 til 1970.

Fundað með landeigendum

Eiðisvatn. Mynd/Aðsend
Eiðisvatn. Mynd/Aðsend

Kristín Kröyer segir ýmiss konar mengun á svæðinu en mest aðkallandi sé að bregðast við PCB-menguninni.

„Matvælastofnun beindi því að landeigendum á fundi að það væri óráðlegt að borða fisk og egg á þessu svæði,“ segir Kristín. Sá fundur hafi verið haldinn í þar síðustu viku.

Hvorki fiskarnir sjálfir né egg hafa verið rannsökuð enn þá.

„Við erum búin að gera ákveðnar mælingar í vatninu og yfirborðsvatninu og eftir ákveðnum vísindalegum aðferðum er búið að reikna út jafnvægisgildi. Það er vitað hversu mikið fiskur tekur upp úr vatni og þá er hægt að reikna út hversu mikið ætti að vera af PCB í fiskinum,“ segir Kristín.

Frekari rannsóknir í sumar

Að öllu óbreyttu segir Kristín að farið verði í rannsóknir á fiskunum til að staðfesta þessa útreikninga. Hún hafi sent Norwegian Geotechnical Institute erindi þess efnis og geri fastlega ráð fyrir því að það verði á þessu ári. Landeigendurnir sjálfir stóðu fyrir komu kanadískra vísindamanna hingað til lands fyrir nokkrum árum. Efni sem þeir fundu og geta verið hættuleg heilsu manna og dýra voru auk PCB meðal annars blý, sink, kvikasilfur og olíuefni og úran.

Úr rannsóknarferð á Heiðarfjall í ágúst 2023. Mynd/Umhverfisstofnun
Úr rannsóknarferð á Heiðarfjall í ágúst 2023. Mynd/Umhverfisstofnun

Tóku úran af borðinu

„Þeir mældu úran en Geislavarnir ríkisins fóru upp á fjallið síðasta sumar og framkvæmdu geislamælingar og efnamælingar og það virðist ekki vera mikil geislun eða úran. Þannig að við erum að minnsta kosti búin að taka það út af borðinu,“ segir Kristín um úranið.

„PCB er þrávirkt efni og er það sem veldur okkur mestum áhyggjum,“ ítrekar Kristín. Erfitt sé að segja til um það með vissu hvaðan efnið kemur en þekkt sé að spennar hafi innihaldið PCB-olíu áður fyrr. Efnið geti því hafa komið úr spennum sem tilheyrt hafi ratsjárstöðinni og annað hvort lekið eða verið urðaðir.

„Mengunin þarna er að vissu leyti mjög alvarleg en hún er mjög staðbundin,“ segir Kristín m stöðuna á Heiðarfjalli.

Fleygt út af skrifstofum með handafli

„Ég hef ekki étið fiska upp úr þessu vatni í tuttugu ár,“ segir  Sigurður Rúnar Þórðarson matvælatæknifræðingur, einn þeirra sem keyptu jarðirnar Eiði og Ártún árið 1974, meðal annars til að stunda þar fiskeldi.

Stússast í laxeldinu við Eiðisvatn. Mynd/Aðsend
Stússast í laxeldinu við Eiðisvatn. Mynd/Aðsend

„Það var búið að segja okkur í síðastliðin tæp fimmtíu ár að það væri ekkert þarna og við ættum að hætta þessu,“ segir Sigurður um baráttu landeigendanna fyrir því að komist væri til botns í mengunarmálinu og það síðan leitt til lykta.

„Við keyptum þessa jörð þegar við vorum ungir menn og erum búnir að vera að berjast við þennan draug í tæp fimmtíu ár,“ segir Sigurður. „Við höfum farið með þetta í réttarkerfið og alla mögulega ráðherra sem hafa komið að þessum málum í gegnum árin. Í nokkrum tilfellum var okkur hreinlega fleygt burt með handafli af skrifstofum þeirra.“

Allt hreinsað í Kanada

Sigurður bendir á að Bandaríkin hafi ásamt Kanadamönnum kostað hreinsun á yfir fjörutíu sambærilegum stöðvum sínum í Kanada en ekki talið sér skylt að aka til eftir sig á Heiðarfjalli þar sem allur úrgangur úr ratsjárstöðinni hafi einfaldlega verið skilinn eftir.

Seiði fyrir laxeldið voru alin upp fyrir sunnan og síðan flutt í Eiðisvatn. Mynd/Aðsend
Seiði fyrir laxeldið voru alin upp fyrir sunnan og síðan flutt í Eiðisvatn. Mynd/Aðsend

Sigurður kveðst á árinu 2016 hafa lýst ástandinu fyrir mönnum sem hafi staðið að upphreinsun stöðva í Kanada á vegum tveggja mjög virtra háskóla, Military Collage og Queens University.

„Þeir hafa verið að hreinsa upp stöðvar síðan á sjöunda áratugnum. Það hefur verið kostað af kanadíska ríkinu og Bandaríkjamönnum. Þetta þótti alveg sjálfsagt að það væri tekið til eftir þessa menn á yfir fjörutíu systurstöðvum stöðvarinnar á Heiðarfjalli,“ segir Sigurður.

Kanadamennirnir hafi varla trúað því hvernig málið væri höndlað af íslenskum stjórnvöldum. Þeir hafi boðist til að koma og gera úttekt.

Mengun til þúsund ára

„Þá kemur í ljós það sem við vorum búnir að segja allan tímann að þarna voru yfir tíu þúsund tonn af eiturefnum grafin. Það er PCB mengun um allt fjallið. Þetta var bara grafið þarna og er farið að leka niður og mun leka niður næstu þúsund árin,“ segir Sigurður.

Vorið 2021 samþykkti Alþingi loks í ljósi niðurstaðna Kanadamannanna að ráðist yrði í rannsóknir á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni á Heiðarfjalli. Einnig að gerð yrði áætlun um kostnað og hreinsun á úrgangs- og spilliefnum á svæðinu.

Sem fyrr segir keyptu Sigurður og félagar Eiði meðal annars til að stunda þar fiskeldi. Þar hefur einnig verið mikil sjóbleikjuveiði og eggjataka og frá aldaöðli hafi verið tekin þar dúnn.

Hálf milljón  laxaseiða

Félagarnir byggðu og ráku klakstöð við Myrkurtjörn ofan við Dalland austur af Reykjavík.

Móttaka á endurheimtum laxi úr gildrumannvirkjum við Eiðisvatn. Mynd/Aðsend
Móttaka á endurheimtum laxi úr gildrumannvirkjum við Eiðisvatn. Mynd/Aðsend

„Þar framleiddum við nokkur ár í röð allt að 500 þúsund laxaseiði sem flutt voru til sleppinga og áframeldis í Eiðisvatni. Árangurinn af þessu skilaði sér með endurheimtu úr sjó á allt að 2 prósent sem mun vera á pari við það sem best gerist í nokkrum gjöfulum veiðiám á landinu,“ segir Sigurður.

Þeim hafi hins vegar síðar orðið ljóst að gríðarlegt magn af hættulegum úrgangi á svæðinu  gæti haft skaðleg áhrif á lífríki fiska.

„Þannig að það var sjálfhætt að hugsa um fiskeldisáform á þessum stað,“ segir Sigurður. Eldið hafi því lognast út af um það bil áratug eftir að það hófst.

Girði fjallið af

Nú segir Sigurður rætt um að Heiðarfjall verði girt af vegna mengunarinnar. „Það er staðfest að það sé gert ráð fyrir því að PCB-mengunin sé 127-falt miðað við venjulega staðla um PCB-gildi í jarðvegi og vatni. Þarna eru þungmálmar og eiturefni eins og kvikasilfur og fleira. Og þarna er allt löðrandi í asbesti. Þarna eru saman komin öll hugsanleg efni sem valda skaða í náttúrunni.“

Í dag segir Sigurður landeigendurna alla komna um eða yfir áttrætt. Staðan við Heiðarfjall alla þessa áratugi og skeytingarleysi stjórnvalda hafi staðið í vegi fyrir áformum þeirra.

„Þetta er það sem blasir við í dag og er það sem við vissum allan tímann.  Þessi meðferð á okkur sem einstaklingum er náttúrlega algjörlega fyrir neðan allar hellur og óskiljanleg með öllu. Óheiðarleiki manna sem valist hafa í íslenska stjórnsýslu virðist vera óendanlegur,“ segir Sigurður Rúnar.

Mengunin á Heiðarfjalli

Á Heiðarfjalli var að sögn Sigurðar Rúnars meðal annars urðað mikið magn rafgeyma, sem samkvæmt reglum Bandaríkjahersins var skipt út á nokkurra mánaða fresti.

Ratsjárstöðin á Heiðarfjalli þar sem mikil umsvif voru.
Ratsjárstöðin á Heiðarfjalli þar sem mikil umsvif voru.

„Þetta var tröllaukið orkuver sem átti að grípa til ef allar sjö díselknúnu rafstöðvar sem voru til taks á fjallinu, biluðu samtímis,“ segir Sigurður.

Þá segir Sigurður að urðuð hafi verið ókjör matvæla sem skipt hafi verið út reglulega er frystigeymslur voru tæmdar og birgðir endurnýjaðar. „Auk alls annars þúsunda hálffullra olíutunna, járnarusls, asbest einangrunarplatna. Allt á milli himins og jarðar,“ segir hann.

Að sögn Sigurður má ætla að allir þeir PCB kældu (60 riða 110 volta) rafspennar sem voru tengdir díselrafstöðvunum hafi endað í haugunum. „Þrátt  fyrir kröftug mótmæli starfsmanna utanríkisráðuneytisins, sem sóru að spennarnir hafi allir verið fluttir burtu,“ segir hann.