Áhöfn uppsjávarskipsins Aðalsteins Jónssonar SU frá Eskifirði mótmælir harðlega nýju kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og segir að með því sé gerð hörð atlaga að lifibrauði sjómanna og fjölskyldna þeirra.
Í ályktun áhafnarinnar segir m.a.:
,,Við sjómenn höfum í áranna rás þurft að þola miklar sveiflur í kjörum okkar þar sem laun tengjast beint gengi gjaldmiðla og verði á erlendum mörkuðum. Með fullkomnari skipum, aukinni gæðastýringu og stöðugleika í aflaheimildum höfum við getað hámarkað afraksturinn af vinnu okkar og tryggt fjölskyldum okkar viðunandi afkomuöryggi.
Fullyrðingar stjórnvalda og annarra um að einungis sárafáir menn njóti arðsins af sjávarauðlindinni eru fráleitar, einkum þegar haft er í huga að á bak við hvert útgerðarfyrirtæki eru sjómenn, fiskvinnslufólk og starfsmenn fyrirtækja í tengdum iðnaði. Yfirlýsingar stjórnvalda eru bein ógnun við afkomu þúsunda fjölskyldna um allt land og mun aldrei skapa sátt, stöðugleika eða aukna afkomu þeirra sem við sjávarútveg starfa.”
Skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka umrætt kvótafrumvarp og leggja raunverulega vinnu í það að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið í samráði við alla aðila og þá sérstaklega við það fólk sem í dag standi vaktina á sjó og í landi til að afla þjóðarbúinu tekna allt árið um kring. Núverandi frumvarp sætti ekki ólík sjónarmið þegar komi að áralangri deilu um fyrirkomulag við stjórn fiskveiða.