Það er mat bresku hugveitunnar New Economics Foundation (NEF) að ofveiði fiskistofna innan aðildarríkja Evrópusambandsins kosti 3,2 milljarða evra árlega, jafnvirði 520 milljarða íslenskra króna, og 100.000 störf glatist hennar vegna.
Í nýrri skýrslu sem nefnist ,,Jobs Lost at Sea“ er komist að þeirri niðurstöðu að ef 43 fiskistofnar í lögsögu ESB (af samtals 150) yrðu endurreistir þannig að af þeim fengist hámarksafrakstur myndi það auka landaðan afla um rúmlega 3,5 milljónir tonna.
Þorskur er sagður fara verst út úr þessu ástandi. Um 970.000 tonn á ári tapist af honum vegna ofveiði. Af ýsu tapist 378.000 tonn, af síld 854.000 tonn og af lýsingi 834.000 tonn.
Skýrsluhöfundar telja að með því að endurreisa fiskistofnana megi auka aflaverðmæti um 81% í ESB-ríkjunum í heild og meira en tvöfalda það í flestum löndum, svo sem Bretlandi og Þýskalandi.
Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com.