Undanfarin ár hefur verið unnið að því hjá Hampiðjunni að þróa frekar DynIce Warp togtaugarnar með því  að bæta inn rafmagnsleiðurum í nýja gerð sem fær þá nafnið  DynIcePower Warp. Þetta kemur fram í frétt á vef Hampiðjunnar.

Í miðju ofurtogtaugarinnar er skermaður samása (co-axial)  leiðari sem getur flutt merki eða rafmagn og utan um hann eru síðan 6-8 rafmagnsleiðarar.Tilgangurinn er að koma rafmagni og merki frá skipinu niður í stjórnbox í toghleranum og sem getur nýst til að stýra honum meðan á togi stendur.

Þróunarverkefnið nýtur styrks frá Tækniþróunar sjóði og að sögn Jóns Atla Magnússonar, vöruþróunar- stjóra Hampiðjunnar, eru miklar vonir bundnar við að þessi nýja tækni geri það kleift að leiða raforku niður í veiðarfærin. Samhliða þróunarvinnunni hefur verið sótt um einkaleyfi fyrir þessari nýju hönnun á togtaugunum og umsóknarferlið er komið vel á veg.

Sjá nánar á vef Hampiðjunnar .