Báturinn er keyptur frá Noregi en hefur enn ekki fengið nýtt nafn. Kristján Rafn Guðmundsson sigldi honum heim til Ísafjarðar, en það reyndist dálítið flókið á Covid-tímum.

„Það er alltaf gott að kaupa skip af einhverjum sem á pening. Allt viðhald og þess háttar hefur verið tipp topp,“ segir Rúnar Karlsson, sem hefur ásamt fleirum rekið Borea Adventures á Ísafirði síðan 2006. Fyrirtækið býður upp á siglingar til Hornstranda og Jökulfjarða og er nú búið að kaupa nýjan bát frá Noregi, glæsilegt fley sem flytur 48 farþega.

„Það var bæði stækkuð brúin á honum, skipt um öll siglingatæki og settar í hann nýjar vélar 2016,“ segir Rúnar. „Það er búið að skipta um öll sæti líka, og báturinn kemur til með að taka 48 farþega.“

Báturinn er keyptur af norsku fyrirtæki, Florø Skyssbåt, sem hefur verið með nokkra báta í áætlunarferðum, vöruflutningum, sjúkraflutningum og fleiru.

Báturinn er 17 metra langur, smíðaður 1986 og hefur í Noregi haft nafnið Dagning. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um nýtt nafn. Rúnar frétti af því að þessi bátur gæti verið til sölu og hafði samband við eigendurna.

„Þeir voru svo sem ekkert búnir að velta því fyrir sér að selja. Voru tiltölulega nýbúnir að kaupa nýtt skip, og voru þá ekkert að nota þennan mikið. Við náðum svo samkomulagi við þá.“

Voru í vinnusóttkví

Kristján Rafn sigldi síðan bátnum heim frá Noregi, ásamt Rúnari og þriðja manni í áhöfn. Covid setti þar nokkur strik í reikninginn.

„Við máttum eiginlega ekkert fara til Noregs, en komumst inn á því að það er undantekning fyrir áhafnir skipa. Við þurftum þá að vera í vinnusóttkví um borð, og þurftum síðan að græja hitt og þetta eins og gengur. Þarna vorum við í viku og héldum þá af stað á Hjaltlandseyjar. Þeir ætluðu nú ekki að hleypa okkur í höfn þar, því Hjaltlandseyjar eru lokaðar. En þegar við sögðum að við værum ekki túristar þá hleyptu þeir okkur inn til að taka olíu, og sögðu svo að við mættum alveg fara í land ef við vildum. Síðan fórum við á Eskifjörð og þar var girt utan um skipið.“

Loks var siglt til Siglufjarðar og þaðan heim á Ísafjörð. Báturinn verður síðan tekinn í notkun „þegar við fáum blessun frá æðri máttarvöldum. Þetta snýst svolítið um það,“ segir Rúnar og á þar við Samgöngustofu sem þarf að skoða bátinn og gefa haffærniskírteini.