Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES) birti á föstudag ráðgjöf sína um áhættumat erfðablöndunar laxa vegna sjókvíaeldis á Íslandi. Þar eru gerðar ýmsar athugasemdir við gerð áhættumatsins.

ICES segir í ráðgjöf sinni að það sé samkvæmt varúðarreglu að miðað sé við að í ám sé ekki meira en 4 prósent af eldislaxi. Þar til ýmsir óvissuþættir hafi verið teknir með í reikninginn telji ICES hins vegar að sá fjöldi eldislaxa sem nú komist í árnar hérlendis samrýmist enn ekki því magni fiska sem talið sé óhætt að vera með í eldinu.
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar, segir áhættumatið, eins og það sé gert og hugsað, ekki hafa átt fyrirmyndir annars staðar.
Ekki fullskapað á einni nóttu
„Það verður náttúrlega ekki fullskapað á einni nóttu,“ bendir hann á. Þegar lagt sé af stað með ákveðnar forsendur sé verið að horfa til gagna. Ef ekki séu til gögn frá Íslandi verði að styðjast við gögn annars staðar frá. Smám saman hafi verið að koma gögn frá Íslandi og þá séu þau tekin með.
„Áhættumatið er stjórntæki hugsað svipað og í fiskveiðistjórnuninni. Ef umhverfisáhrif af sjókvíaeldi eru talin óásættanleg þá þarf að draga úr því og svo öfugt; ef umhverfisáhrifin eru minni þá sé óhætt að auka án þess að það hafi áhrif á vatnsgæði eða villta stofna,“ segir Guðni. Óskað hafi verið eftir því að Alþjóða hafrannsóknaráðið tæki sér að yfirfara áhættumatið; forsendur þess og þau gögn sem það byggði á. Sú yfirferð liggi nú fyrir.
Huga þurfi að óvissuþáttum
„Það stendur hins vegar til að gefa út nýtt áhættumat innan skamms og þá að sjálfsögðu verður brugðist við þessum ábendingum sem koma,“ tekur Guðni fram.
Línuna í ábendingum ICES segir Guðni að sé fyrst og fremst það að taka þurfi tillit til óvissu í gögnum. Æskilegt æskilegt væri að útvíkka þetta og gera sambærilega hluti með gögnum og þekkingu og fólki frá Noregi, Írlandi, Skotlandi, Íslandi og Kanada „Þannig að það væri þá byggt á allri þeirri vitneskju sem er til,“ segir hann.
Annað segir Guðni vera ábendingar sem séu eðlilegar og ágætar. „Eins og það hvernig að við metum stofnstærðir, um það hvað við vitum um hversu margir fiskar eru að sleppa, hvernig fjöldinn er metinn, hverjar endurheimturnar eru og hvernig það er síðan tekið inn í það líkan sem er notað til þess að reikna út þann lífmassa sem talið er óhætt að megi ala. Og síðan að það verði að taka tillit til varúðarreglu eins og Alþjóða hafrannsóknaráðið gerir að öllu jöfnu.“
Misskilningur um ofmat
Í ábendingum ICES segir að verið sé að ofmeta villta laxastofna á Íslandi. Og þar með að vanmeta erfðablöndunina. Þetta segir Guðni byggt á misskilningi. Þegar ICES nefndin hafi fundað hér á landi með innlendum hagsmunaaðilum hafi þar legið fyrir ofmat á villtum stofnum. Það sé ekki það mat sem sé verið að nota og verði notað.
„Því miður kom það þarna inn og við vorum búnir að koma leiðréttingum á framfæri,“ segir Guðni. Vandinn sé sá að heildarstofnstærðin á Íslandi skipti kannski ekki máli vegna þess að árnar séu metnar hver í sínu lagi Það var verið að vinna hluti á tiltölulega of stuttum tíma þannig að það slysaðist þarna inn röng tala sem við náttúrlega rákum augun í um leið og við sáum hana. En raunin er sú að við tökum hverja á fyrir sig. Vissulega verðum við að meta stofnstærð, við höfum ekki talningar nema þar sem eru teljarar og þá verður að beita öðrum ráðum og það eru náttúrlega alltaf eins og í öllum mötum; það verður ákveðin óvissa,“ segir Guðni.
Gera áhættumatið enn betra
Spurður hvort ICES sé í raun að segja að núverandi framleiðsluþak í sjókvíaeldi sé of hátt svarar Guðni að niðurstaða nefndarinnar snúi að aðferðunum sem byggt sé á við áhættumatið.
„Er það líkan sem er verið að nota nægilega gott til þess að nýta til að gera svona mat? Hvernig eru breyturnar sem eru í líkaninu? Hvernig eru þær fundnar? Hvaða breytur eru notaðar? Hvernig er matið á þeim? Hvernig eru þær metnar? Hvaða gögn liggja að baki? Og það er í rauninni það sem þeir voru að fara yfir. Þannig a[ við erum ekki komin að niðurstöðu en getum horft til þessara ábendinga til þess að gera það mat sem við erum að vinna að núna enn betra,“ segir Guðni.
Ber líka að taka tillit til mótvægisaðgerða
Að sögn Guðna er bent á að við verðum að taka varúðina með í reikninginn. „En svo þurfum við náttúrlega líka að horfa til þess að í okkar lagaumhverfi þá ber að taka tillit til mótvægisaðgerða,“ undirstrikar hann.
Nefndin hafi skoðað hver talan var er síðasta mat var gert árið 2020. Það skipti máli því síðan þá hafi orðið nokkrir strokatburðir sem verið sé að taka inn í dæmið. Yfir það hafi verið farið á áðurnefndum fundi. Þær ábendingar sem komnar séu núna séu að mörgu leyti mjög góðar.
Gerum okkar besta
„Sumt reyndar er þannig að þó að menn séu með góðan bakgrunn og að menn séu flinkir sem koma annars staðar frá þá er ekki alltaf að menn átti sig á öllum aðstæðum og öllu því sem undir liggur en það er þá okkar að skýra þannig að það sé skiljanlegt og tekið með í reikninginn,“ segir Guðni.
Nýtt áhættumat erfðablöndunar er væntanlegt innan skamms. „Það var gefið út 2020 og síðan átti að koma annað 2023 en þá strauk kynþroska fiskur sem fór í ár. Þá var ákveðið að við þyrftum að læra af því og það er búin að vera í heilmikil gagnasöfnun,“ segir Guðni. Hún hafi snúist um hvaðan laxarnir komu og hvert þeir fóru og hvort þeir hafi hrygnt og hvort náðst hafi að mæla blendinga úr þessu stroki.
Skila rökstuðningi áður en niðurstaðan er opinberuð
„Ég held að það sé best að við göngum frá þessu með rökstuðningi áður en við förum að segja eitthvað óábyrgt,“ svarar Guðni spurður hvers vænta megi í nýja áhættumatinu. Sett hafi verið mörk um að fjöldi eldisfiska sem væru að ganga kynþroska inn í ár færi aldrei yfir 4 prósent af stofnstærð villtra laxa í hrygningarstofni.
„Þessi fundur sem var haldinn hér sýndi fram á það að þetta ferli er ekkert einfalt og það eru margar breytur þarna inni en við erum að reyna að gera okkar besta,“ segir Guðni Guðbergsson.
Áfellisdómur yfir höfundum áhættumats Hafrannsóknastofnunar
„Skemmst er frá því að segja að niðurstöður ICES eru áfellisdómur bæði yfir höfundum áhættumatsins og íslenska ríkinu,“ segir Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.

Í ráðgjöf sinni hafi ICES tekið undir marg ítrekaðar áhyggjur Landssambands veiðifélaga um stórkostlega ágalla á matinu.
„Telur ICES að fjölmargar stikur áhættumatsins séu ranglega áætlaðar og má þar helst nefna stofnstærð villtra laxastofna, fjölda stroklaxa og lífslíkur þeirra, og að ekki sé tekið tillit til minni stofna villtra laxa. Telur ICES að van- eða ofmat slíkra stika leiði til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunnar um hversu mikið magn af frjóum eldislaxi megi ala í kvíum hér við land, án þess að villtum laxastofnum sé spillt, sé ekki í samræmi við varúðarnálgun. Öll ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um nýtingu á auðlindum á að byggja á varúðarnálgun eins og raunin hefur verið í öllum tilvikum er varðar veiðar í sjó. Því er óskiljanlegt að höfundar áhættumatsins hafi horfið frá þessari nálgun í ráðgjöf varðandi fiskeldi og villta laxastofna,“ segir Gunnar.
Erfðamengun þegar yfir mörkum áhættumatsins
Þá segir Gunnar að samkvæmt ICES sé hættumat erfðablöndunar sem hingað til hafi verið í gildi og tillögu að nýju mati vera hvort tveggja verulega gallað.
„Enda hafa rannsóknir sýnt að erfðamengun er þegar yfir þeim mörkum sem áhættumatið gerði ráð fyrir og að eldislaxar hafa gengið í ár í mun meira magni og á mun stærra svæði en matið gerði ráð fyrir. Því er ljóst að Hafrannsóknastofnun og íslenska ríkið hafa fullkomlega brugðist skyldum sínum til að vernda villta íslenska laxastofna og um leið réttindi íslenskra bænda og veiðiréttarhafa sem varin eru í stjórnarskrá,“ segir Gunnar Örn Petersen.