"Það er óásættanlegt ef sjávarútvegráðherra ætlar að brjóta lög um stjórn fiskveiða," segir Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ um fyrirætlan sjávarútvegsráðherra að leggja fram frumvarp þar sem kveðið verði á um setningu nýrra reglna um úthlutun aflahlutdeilda í úthafsrækju þar sem núverandi aflahlutdeildir vegi einungis 70% en veiðar síðustu þriggja fiskveiðiára 30%. Þetta kemur fram á heimasíðu LÍÚ.

Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ segir að samkvæmt 2. mgr. 3. greinar laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 beri sjávarútvegsráðherra að úthluta aflamarki í úthafsrækju samkvæmt núgildandi aflahlutdeildum fyrir næsta fiskveiðiár sem hefst 1. september nk. Annað sé skýrt lögbrot.

Adolf segir að verði þessar hugmyndir að veruleika verði brotið gróflega á þeim sem eiga aflahlutdeild í úthafsrækju. Lög um stjórn fiskveiða geri ráð fyrir því að heimilt sé að framselja aflamark í úthafsrækju eins og í öðrum tegundum. Hann segir að ekki sé hagkvæmt að allir sem eiga aflahlutdeild veiði það aflamark sem úthlutað er. Með fyrirhugaðri aðgerð verði þessum aðilum einungis fjölgað. Adolf nefnir sem dæmi að útgerðin sem hann stýrir hafi keypt 0,2% aflahlutdeild í úthafsrækju árið 2006 sem samkvæmt ráðgjöf Hafró hefði skilað 10 - 14 tonna aflamarki á undanförnum árum. Það sé ekki hagkvæmt fyrir fyrir fyrirtækið að sækja svo lítinn afla en miðað hafi verið við að skipta rækjunni fyrir aflaheimildir í öðrum tegundum. Sama eigi við um fjölmargar aðrar útgerðir. Adolf segir að með þessu sé komið aftan að mönnum sem hafi starfað samkvæmt gildandi lögum.