Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 17,4 milljarða króna (296 milljarða ISK) á fyrsta ársfjórðungi 2015. Þetta er 3% aukning miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef norska sjávarafurðaráðsins (Norges sjømatråd).

Í mars voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 6,4 milljarða (109 milljarða ISK) sem er 13% aukning frá sama mánuði í fyrra. Hinn mikli útflutningur í mars réði úrslitum að fyrsti ársfjórðungurinn sló öll fyrri met í útflutningi sjávarafurða. Hátt þorskverð er ein meginskýringin á þessum góða árangri.

Lax skilaði 11,2 milljörðum í útflutningstekjur (190 milljörðum ISK) á fyrsta ársfjórðungi og jókst um 536 milljónir frá sama tíma í fyrra. Meðalverð á laxi í mars var 41,48 krónur á kíló (705 ISK) en var í mars í fyrra um 43,91 króna.

Þorskútflutningur nam 869 milljónum (14,8 milljörðum ISK) á fyrsta ársfjórðungi sem er 14% aukning miðað við sama tíma í fyrra.