Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að láta smíða nýtt hafrannsóknaskip fyrir Náttúrustofnun Grænlands og er stefnt að því að það verði tekið í notkun árið 2020. Ráðgert er að skipið kosti um 200 milljónir danskra króna, jafnvirði tæplega 3,4 milljarða ÍSK.

Nýlega var grænlenska hafrannsóknaskipinu Paamiut lagt. Það hefur undanfarin ár verið í förum í grænlenskri lögsögu og stundað rannsóknir á ástandi fiskistofna. Kvótaúthlutanir byggjast að sjálfsögðu að mestu leyti á niðurstöðum úr leiðöngrum rannsóknaskipsins.

Grænlensk stjórnvöld tilkynntu ákvörðun sína í byrjun ágúst og lagðar voru fram 95 milljónir danskra króna sérstaklega til kaupa á nýju rannsóknaskipi. Þessu til viðbótar verða lagðar fram 58 milljónir kr. á næsta ári og 47 milljónir árið 2020. Sagt er frá þessu á vefsíðu Sermitsiaq.