Lokið er undirbúningi að alþjóðlegu merki fyrir ábyrgar fiskveiðar frumbyggja, strandveiðimanna og smábátaveiðimanna og eru tvö íslensk fyrirtæki, Hamar í Hrísey og Sjávariðjan á Rifi, í vottunarferli. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.
Arthur Bogason fyrrum formaður alþjóðasamtakanna, hefur ásamt fleirum unnið að framgangi þessa máls. Nú liggur merkið ARTYSANAL fyrir og hafa staðlar þess verið vottaðir af Eurofins vottunarstofunni en þeir eru meðal annars byggðir á viðmiðunum FAO um ábyrgar fiskveiðar.
„Hugmyndin er sú að með því að merkja vörurnar á þennan hátt sé unnt að aðgreina þær á völdum mörkuðum frá magnframleiddum vörum úr iðnaðarveiðum. Þau umhverfismerki sem nú eru í notkun gera ekki greinarmun á veiðarfærum og hafa ekki tengingu við félagsleg og efnahagsleg áhrif sem stjórnkerfi fiskveiða geta haft,“ segir Arthur og tekur fram að nýja merkið hafi slíka skírskotun.
Sjá nánar í Fiskifréttum.