Hafrannsóknastofnun hefur tekið í notkun nýstárlegt tæki með þremur pokum sem tengt er aftan við vörpu og hægt er að opna og loka á fyrirfram ákveðnu dýpi með tímastilli. Þessi tækjabúnaður hefur gefið góða raun bæði við rannsóknir á karfa og gulldeplu, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Með hjálp búnaðarins geta leiðangursmenn vitað nákvæmlega á hvaða dýpi viðkomandi togprufa kemur í pokana. Þeir þurfa þá ekki að hífa og kasta fyrir hvert dýpi eins og áður og losna við að fiskur af öðru dýpi bætist við í pokann þegar trollið er dregið upp. Þar sem pokarnir eru þrír er hægt að fá prufur af þremur mismunandi dýpum í einu togi sem er mikið hagræði.

,,Við vorum að rannsaka endurvarpið á gulldeplunni og þurftum því að fá mjög nákvæma og markvissa sýnatöku úr bergmálslóðunum sem við sáum. Segja má að við höfum hitt beint í mark með þessum búnaði því í sumum tilvikum fengum við nánast hreina gulldeplu í einu laginu og svo hreinan spærling í næsta lagi fyrir neðan,” sagði Birkir Bárðarson líffræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Nánar er fjallað um þennan tækjabúnað og möguleikana sem honum tengjast í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.