Framtíð nýrrar gerðar RIB-aðgerðarbáta fyrir björgunarsveitir, strandgæslu og fleiri aðila, sem fyrirtækið Rafnar í Kópavogi hefur þróað og smíðað, er talin ráðast á næstu sex til tólf mánuðum. Um íhaldssaman markað er að ræða en miðað við móttökur sem sýningarbátar fyrirtækisins hafa fengið á erlendum bátasýningum ríkir bjartsýni um framtíðina.

Um er að ræða nýja gerð bátskrokks sem byggir á hugmynd stofnanda fyrirtækisins, Össurar Kristinssonar. Fyrirtækið hefur fengið einkaleyfi fyrir ÖK Hull skrokkhönnuninni í Bandaríkjunum og skráning einkaleyfis í Evrópu er innan seilingar.

Bátarnir eru í þremur stærðum. Bát af gerðinni Leiftur 1100, sem fékk heitið EMBLA, var siglt sl. haust 1.300 sjómílna leið frá Kópavogi til Noregs þar sem hann var sýndur á bátasýningu í Ósló.

Bátarnir þykja einnig henta vel sem þjónustubátar fyrir lystisnekkjur. Rafnar hefur gert leyfissamning við ástalska bátasmiðju, Vikal International, sem felur í sér að Vikal mun bjóða viðskiptavinum sínum að smíða báta á ÖK Hull skrokki. Fyrirtækið var stofnað af Gunnar Víkingi, sem er af íslenskum ættum en hefur búið frá barnsaldri í Ástralíu. Gunnar hreyfst mjög af sjóhæfni Rafnars bátanna þegar hann var um borð í EMBLU þegar henni var siglt til Noregs.

Sjá nánar í Tímariti Fiskifrétta.