Nýjasti togari Grænlendinga, Steffen C, er nú á leiðinni til Grænlands. Hann var smíðaður í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, hinni sömu og er nú að leggja lokahönd á nýja Sólbergið.
Steffen C er 83,5 metrar á lengd og 17 metrar á breidd og var í fréttum síðastliðið vor sagður kosta 350 milljónir danskra króna eða jafnvirði 5,6 milljarða ISK miðað við gengisskráningu í dag. Skipið er hannað hjá Skipteknisk í Noregi. Það er útbúið til veiða með bæði botntrolli og flotvörpu og getur dregið tvö troll í senn. Þá er vinnslubúnaðurinn tvenns konar þannig að hægt er að vinna hvort heldur sem er rækju eða makríl um borð.
Skipið er innréttað fyrir 32 manna áhöfn og er aðbúnaður skipverja allur hinn besti auk þess sem velútbúið sjúkrarými er um borð.
Skipið er smíðað fyrir útgerðina Sikuaq Trawl í Nuuk á Grænlandi sem er fjölskylduútgerð.
Því má bæta við að eldri rækjutogari með sama nafni frá sömu útgerð var seldur útgerðinni Reyktal sem Íslendingar tengjast.