„Við erum í miðri söfnun,“ segir Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands, sem fengið hefur fjögurra milljóna króna styrk  frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til að kaupa siglingahermi.

Að sögn Ragnheiðar náði Fiskitækniskólinn að safna fyrstu fjóru milljónunum fyrir herminum í fyrra með framlagi frá fyrirtækjum og stéttarfélögum í bláa hagkerfinu í tilefni af tíu ára afmæli skólans. Enn vanti fjórar milljónir því hermirinn kosti um tólf milljónir. Fyrir liggi því að tryggja það fé svo hægt verði að festa kaup á herminum.

„Okkur langar til að kaupa færanlegan hermi því við höfum verið með kennslu svolítið

á ferðinni. Við sjáum líka tækifæri í að leigja hann mögulega til fræðslustofnana sem eru með smáskipanám,“ segir Ragnheiður.

Námið strandar á hermi

Smáskipanám Fisktækniskólans miðar við báta undir fimmtán metrum að lengd. Ragnheiður segir mikla eftirspurn eftir slíku námi. Hún sé einkum vegna  strandveiðibáta, hvalaskoðunarbáta og þjónustubáta í fiskeldi. Fengist hafi aðgangur að siglingahermi Tækniskólans en hann hafi verið takmarkaður.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskólanum. Mynd/Aðsend
Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskólanum. Mynd/Aðsend

„Það hefur strandað á því að geta skipulagt fleiri hópa í smáskipanámi. Við erum svo háðstóru skólunum eins og Tækniskólanum með að komast í hermi og það hefur verið afar erfitt að fá þar inni. Við höfum haft nemendahópa sem hafa viljað taka skipstjórnarréttindi en þurft að bíða og bíða eftir að fá tíma í hermi. Tækniskólinn er með svaka flotta herma en þau eru að keyra skipstjórnarnám alveg frá skemmtibátum upp í  varðskipadeild þannig að hermarnir eru afar umsetnir hjá þeim,“ segir Ragnheiður.

Krossa fingur vegna Grindavíkur

Þótt húsnæði Fisktækniskólans hafi verið í Grindavík segir Ragnheiður skólann þjóna nemendum um allt land. „Við erum því á flandri líkt og flestir Grindvíkingar en það lá fyrir að við myndum flytja okkur í stærra húsnæði innan Grindavíkur með haustinu. Svo nú bíðum við og vonum að við förum að sjá fyrir endann á jarðhræringum og eldgosum og krossum fingur að nýja húsnæðið komi heilt út úr þessu öllu saman,“ segir Ragnheiður.

Staðan er nú metin hverju sinni.

„Við höfum alltaf plan B, C og D bak við eyrað þó að ræturnar liggi klárlega í Grindavík,“ tekur Ragnheiður fram.

Fjórar framhaldsbrautir Námið hjá Fisktækniskólanum hefst á fisktæknibraut sem er tveggja ára  nám. Ragnheiður segir þetta nokkurs konar grunndeild sem geti staðið ein og sér eða verið grunnur að frekara námi innan bláa hagkerfisins eða hvers kyns matvælavinnslu annarri. Skólinn sinnir einnig faggreinakennslu í veiðarfæratækni, eða netagerð.

Nýlega fékk Fiskitækniskólinn fjórar framhaldsbrautir sem byggjast á fisktæknináminu viðurkenndar af ríkinu. Þetta eru fiskeldistækni, gæðastjórnun, haftengd nýsköpun og vinnslutækni sem kennd er við hátæknibúnað Marel.

Opinn faðmur í Sjávarklasanum

Eftir að Grindavík var rýmd í nóvember hefur Fisktækniskólinn verið um víðan völl.

„Það var náttúrlega búið að skrifa undir samning um nýtt húsnæði fyrir skólann í Grindavík en það er óvissa um skólahúsnæðið því við vitum ekki hvernig fer fyrir Grindavík,“ segir Ragnheiður.

Færanlega herminn sem standi til að kaupa sé hins vegar hægt að taka með sér hvert sem er.

„Núna erum við með skrifstofur í húsnæði Sjávarklasans úti á Granda þar sem okkur var tekið opnum örmum en ættum að geta sett herminn upp þar sem skólinn lendir þegar málin skýrast,“ segir Ragnheiður.

„Við höfum kannski ekki getað keyrt smáskipanámið nema einu sinni á ári í mesta lagi út af því að við höfum komist í hermi þannig að þetta er stórt tækifæri fyrir okkur.“

Lygilegt púsluspil

Flottasta bekkjarmyndin hjá Fisktækniskólanum var tekin í Noregi.. Mynd/Aðsend
Flottasta bekkjarmyndin hjá Fisktækniskólanum var tekin í Noregi.. Mynd/Aðsend

Nánar varðandi húsnæðismálin segir Ragnheiður að þannig hafi viljað til að grunnhópurinn átti aðeins eftir rúmlega tvær vikur í staðarnámi þegar Grindavík var rýmd.

„Eftir áramót eru þau alltaf í vinnustaðanámi sem eru skipulögð á vinnustöðum á vorönn þannig að við erum hólpin með það. Framhaldshóparnir okkar eru meira og minna kenndir í lotum og koma þá annaðhvort inn eða eru kenndir í fjarnámi í lotukennslu. Við fengum lendingu fyrir grunnhópinn okkar inni í Keili og Þekkingarsetrinu í Sandgerði og klárum önnina. Þannig að þetta púslast alveg lygilega saman.“

Fjórar milljónir í styrk

Fiskitækniskólinn fékk nýlega einn hæsta styrkinn, fjórar milljónir króna, í úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja sem styður við menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum.

Nemendur á björgunaræfingu. Mynd/Aðsend
Nemendur á björgunaræfingu. Mynd/Aðsend

„Markmið verkefnisins er að eignast siglingahermi til að efla þjálfun og öryggi sjómanna um allt land. Hermirinn mun einnig styðja sjálfbærni Fisktækniskólans varðandi kennslu í Smáskipanámi – Skipstjórn og færa skólanum nýjan tekjustraum með tækifæri á útleigu á þessum búnaði til annarra fræðslustofnana og verkmenntaskóla sem eru að rekast á sömu hindrunina, það er erfiðleika að fá úthlutaðan tíma til kennslu í siglingahermi,“ segir í umfjöllun Uppbyggingarsjóðsins.

Á annað hundrað nemenda í um áttatíu ársgildum eru í Fisktækniskólanum.