Sigurður Markússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunar hjá nýsköpunarfyrirtækinu Sæbýli.
Sæbýli hefur undanfarin ár þróað eigin klakstofn, tækni og framleiðsluaðferðir við eldi á sæeyrum (e. abalone) og fyrirhugar mikla uppbyggingu á komandi árum undir vörumerkinu Aurora Abalone. Hátækniaðferð Sæbýlis er einstök á heimsvísu. Byggir hún meðal annars á lóðréttu eldiskerfi í hillum og nýtingu á volgum síuðum jarðsjó til framleiðslu. Sæeyru eru sæsniglar og ein verðmætasta eldistegund í heimi. Sæbýli horfir m.a. á framleiðslu fyrir sushi veitingastaði í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.
Sigurður mun leiða uppbyggingu áframræktunar fyrirtækisins í Auðlindagarðinum á Reykjanesi þar sem heitur jarðsjór og endurnýjanleg orka frá Reykjanesvirkjun verður nýtt til að knýja framleiðslu fyrirtækisins.
Sigurður kemur til Sæbýlis frá Landsvirkjun þar sem hann var forstöðumaður nýsköpunar. Hann hefur 15 ára reynslu af nýsköpun og þróun í orkugeiranum. Hann er með meistaragráðu í sjálfbærni og stjórnun frá háskólanum í Cambridge ásamt því að vera með meistaragráðu í jarðefnafræði frá Háskóla Íslands.