Nýr Baldvin Njálsson GK, 66 metra skuttogari, var sjósettur í fyrsta sinn í skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni í síðustu viku. Skipið er hannað af íslenska skipahönnunarfyrirtækinu Skipasýn fyrir Nesfisk í Garði. Ráðgert er að skipið verði afhent í nóvember.  Baldvin Njálsson GK verður einn tæknivæddasti skuttogari flotans og verður búinn sjálfvirkum frystibúnaði og vöruhóteli.

Nýi togarinn leysir eldra skip með sama nafni af hólmi sem er að komast til ára sinna. Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, segir að verkinu hafi undið fram samkvæmt áætlunum og nánast engar tafir orðið þrátt fyrir skipulag sem tók mið af sóttvarnaaðgerðum á Spáni.

Í gær var síðan brúin hífð á skipið, sem er 66,3 metrar á lengd og 16 metrar á breidd. Á lokametrum hönnunarinnar bættist við einn metri í lengd skipsins sem verður með búnað til að frysta flök. Skipasmíðastöðin Armon í Vigo á Spáni er eigendum Nesfisks ekki að öllu ókunn því þar var gamli Baldvin Njálsson smíðaður 1991. Hann er því að verða þrítugur um það leiti sem nýja skipið verður afhent.

Nú er mikil vinna að hefjast í skipinu, til að mynda við alla einangrun og vinna við íbúðir og lest. Framundan er líka að setja upp vinnsluna og millidekkið en sá búnaður kemur að stærstum hluta frá Optimar og vélsmiðjunni Klaka. Þá er Optimice BP-120 krapavél og T-2000 forðatankur frá Kapp ehf. í skipinu. Margt af búnaðinum hefur þegar verið smíðað og er tilbúinn til að verða settur í skipið. Nesfiskur hefur haft fulltrúa sinn á svæðinu allt frá því að smíði skipsins hófst haustið 2019.

Sævar segir meginmunurinn á skipunum tveimur sé vöruhótel í tveimur lestum þar sem flokkaður fiskur fer frystur á bretti. Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður sem er einkar mannaflssparandi tæknibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.

Það er hægt að tala um algjöra byltingu í vinnslunni. Vissulega eru komnir sjálfvirkir frystar í skip en flokkunin og pökkunin bætast þarna við sem sparar gríðarlegan sparnað í lönduninni. Fiskurinn er allur forflokkaður á brettum og það þarf ekki fjölda manns við flokkun á bryggjunni. Ætli Sólbergið og Iliveq séu ekki einu íslensku skipin með búnaði af þessu tagi,” segir Sævar.

Í hópi sparneytnustu skipa

Skipið verður með um 4.000 hestafla aðalvél frá Wartsila og skrúfan er engin smásmíði, 5 metrar í þvermál. Skipið verður fyrir vikið einkar sparneytið. Sævar segir raunar að nýr Baldvin Njálsson verði í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.

Sævar segir að stóra byltingin í þessu nýja skipi sé brettavæðingin. Skipulagið kallast vöruhótel og felst í þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum á brettin. Við löndun eru þau tilbúin og tegundarflokkuð til útflutnings. Þetta dregur úr öllu umstangi við löndun þar sem tegundaflokkun fer fram á bryggjunni. Fyrirkomulagið dregur því verulega úr kostnaði við landanir.

Það verða í raun tvær brettavæddar lestar í skipinu því milligólf er eftir lestinni endilangri.  Þetta gefur færi á eins eða tveggja bretta hæð í hvorri lest í stað allt að fjögurra bretta hæð í einni lest. Þetta er ákjósanlegt upp á stöflun í vondum veðrum og gagnvart notkun lyftara í lestunum.

Nesfiskur gerir nú út einn frystitogara, tvo ísfisktogara, þrjá snurvoðarbáta og tvo línubáta. Fyrirtækið er með frystingu, ferskfiskvinnslu, saltfiskverkun, skreiðar- og hausaþurrkun í Garði og frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði.