Með hækkuðum sjávarhita hafa búferlaflutningar fiska í Norður-Atlantshafi aukist. Hver eru líkleg áhrif þessara breytinga hérlendis á næstu árum? Við þeirri spurningu eru engin einhlít svör en á vef Sjávarklasans er velt upp hugsanlegum breytingum.
Augljósasta breytingin er að sjálfsögðu koma makrílsins hingað til lands. Bent er á að smokkfiskur hafi fært sig norður á bóginn og skoskir sjómenn, sem mestmegnis hafi veitt þorsk og ýsu, veiði nú í auknum mæli smokkfisk.
Þá er bent á að ætisþurrð í Norðursjó gæti gert það að verkum að stofnar þaðan flytji sig nær Íslandsmiðum. Hér er aðallega um stofna uppsjávarfiska að ræða eins og brisling og brynstirtlu (hrossamakríl). Knurri úr Norðursjó gæti einnig sest hér. Þá kann stórkjaftan að stækka útbreiðslusvæði sitt hér við land
„Auðvitað skiptir mestu að ólseigi Atlantshafsþorskurinn haldi velli og engar vísbendingar eru um annað. En breytingar kunna að verða meiri með aðrar tegundir eins og uppsjávarfisk, skelfisk og fleira,“ segir í greiningu Sjávarklasans.
Sjá nánar á vef Sjávarklasans.