Sólberg ÓF-1, nýr frystitogari Ramma hf. í Fjallabyggð, sigldi heimleiðis frá Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi síðdegis í gær.
Áætlað er að siglingin til Siglufjarðar taki allt að tveimur vikum og er reiknað með að skipið haldi til veiða viku eftir að það kemur til Íslands, að því er fram kemur á mbl.is.
Sólberg ÓF-1 er 3.720 brúttótonna frystitogari, 80 metrar á lengd og 15,4 metrar á breidd. Skipið er tæknilega fullkomið og allur aðbúnaður eins og best gerist. Gert er m.a. ráð fyrir meiri fullvinnslu fiskafurða um borð en tíðkast hefur í íslenskum frystitogurum.