Nýja uppsjávarskipið Ruth var sýnt gestum og gangandi í Hirtshals í Danmörku um helgina. Skipið er gert út frá Danmörku en er í eigu tveggja Færeyinga með búsetu þar í landi, Gullak Madsen og Ole Nattestad. Þeir eiga 50% hvor í útgerðinni. Fram kemur á færeyska vefnum Fiskur.fo að ósætti sé í félaginu og gert sé ráð fyrir að ágreiningurinn verði útkljáður í gerðardómi.
Ruth er 88 metra langt og 16,6 metra breitt skip smíðað hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku. Það kostaði 292 milljónir DKK eða jafnvirði 5,5 milljarða ISK. Skipið er að sjálfsögðu hið fullkomnasta að gerð og m.a. útbúið til þess að fiska með tveimur trollum samtímis sem er nýjung meðal uppsjávarskipa.
Aðeins átta menn verða í áhöfn í senn: Einn skipstjóri, tveir stýrimenn, einn kokkur, tveir vélstjórar og tveir hásetar.
Á vefnum portal.no er hægt að sjá ljósmyndir af skipinu að innan og utan.