Á árabilinu 2016-2018 verða norskum útgerðum afhent nýsmíðuð skip fyrir 134 milljarða íslenskra króna. Hlutur norskra skipasmíðastöðva í þessari fjárhæð er 85 milljarðar.
Í norska blaðinu Fiskeribladet/Fiskaren segir að um sé að ræða 31 skip af stærri gerðinni, botnfisktogarar, nótaskip, stærri strandveiðiskip, brunnbátar fyrir fiskeldi og tvö hafrannsóknaskip. Þar við bætast svo minni bátar fyrir veiðar og eldi, sem ekki eru inni í þessum tölum.
Útgerð botnfiskflotans hefur skilað mjög góðum arði á síðustu árum, en í þennan útgerðarflokk bætast átta nýir togarar samtals að verðmæti um 34 milljarðar ISK. Það samsvarar 4,3 milljörðum ISK á skip að meðaltali.
Mest er eftirspurnin eftir nýjum brunnbátum fyrir fiskeldi í Noregi. Gert er ráð fyrir smíði á 12 slíkum á ofangreindu tímabili að verðmæti 44 milljarðar ISK.