Hafrannsóknastofnun leggur til að ekki verði veitt meira en 211.309 tonn af þorski, 76.415 tonn af ýsu og 66.533 tonn af ufsa á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september næstkomandi. Alls er í dag birt ráðgjöf um veiðar úr 26 nytjastofnum við Ísland. Um það má lesa á vef stofnunarinnar:

https://www.hafogvatn.is/static/files/2023/00a_radgjof_2023.pdf

Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar segir:

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 1 % hækkun aflamarks þorsks fiskveiðiárið 2023/2024. Byggir sú ráðgjöf á aflareglu stjórnvalda. Því hækkar ráðlagður heildarafli úr 208 846 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 211 309 tonn. Hækkunina má rekja til hækkunar á mati á viðmiðunarstofni í ár. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn þorsks fari hægt vaxandi næstu tvö til þrjú ár þegar árgangarnir frá 2019 og 2020 koma að fullu inn í viðmiðunarstofninn þar sem þeir eru nú metnir yfir meðallagi.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 76 415 tonn sem er 23 % hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlað er að viðmiðunarstofninn muni stækka næstu tvö árin vegna góðrar nýliðunar áranna 2019 til 2021.

Ráðgjöf fyrir ufsa samkvæmt aflareglu lækkar um 7 % frá yfirstandandi fiskveiðiári og er 66 533 tonn.

Ráðgjöf fyrir gullkarfa 2023/2024 er 41 286 tonn, 62 % hærri en á yfirstandandi fiskveiðiári. Ástæða hækkunarinnar er sú að grunnur stofnmats var endurskoðaður á rýnifundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins í byrjun árs. Þrátt fyrir hækkunina er rétt að benda á að nýliðun gullkarfa hefur verið mjög slök undanfarinn áratug og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað umtalsvert á undanförnum árum. Fyrirséð er að stofninn fari minnkandi á komandi árum og að draga þurfi verulega úr sókn.

Lagt er til að aflamark djúpkarfa verði 0 tonn þar sem hrygningarstofn er metinn undir varúðarmörkum. Þessi ráðgjöf er byggð á nýuppfærðu stofnmati fyrir djúpkarfa eftir rýnifund Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ekki er búist að stofninn fari upp fyrir varúðarmörk í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ráðgjöf fyrir grálúðu lækkar um 19 % frá fyrra ári og er 21 541 tonn. Ráðlagt aflamark er lægra vegna endurskoðunar á grundvelli stofnmatsins eftir rýnifund Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Stofnstærð íslensku sumargotssíldarinnar fer nú ört vaxandi, eftir samfellda minnkun árin 2008–2019 vegna slakrar nýliðunar og þrálátrar frumdýrasýkingar í stofninum. Árgangar 2017–2019 eru metnir talsvert stærri en undangengnir árgangar og eru nú meginuppistaðan í viðmiðunarstofninum. Ráðgjöf samkvæmt aflareglu stjórnvalda er 92 634 tonn eða 40 % hærri en á yfirstandandi fiskveiðiári.

Fréttin hefur verið uppfærð