Anna Kristín Daníelsdóttir hjá Matís hefur undanfarin fjögur ár stjórnað evrópska verkefninu MareFrame ásamt Gunnari Stefánssyni hjá Háskóla Íslands. Hafrannsóknastofnun gegndi einnig lykilhlutverki í verkefninu. Lokaskýrsla verkefnisins er komin út og verður kynnt fyrir hagsmunaaðilum innan tíðar.

„Fiskveiðistjórnun víðast hvar í heiminum hefur snúist næri einvörðungu um einstaka stofna,“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, sem einnig hefur tekið virkan þátt í verkefninu ásamt fleiri Íslendingum.

„Þegar ákveðið er hvað eigi að veiða mikið af t.d. þorski þá eru menn bara að einblína á hvað sé mikið til af þorski í sjónum. En það sem verið er að reyna að gera núna er, eins og í tilviki þorsksins, að skoða hvert hlutverk þorsksins sé í stóra samhenginu. þá er til að mynda tekið með í reikninginn samspil þorsksins gagnvart tegundum sem hann lifir á og tegundum sem lifa á honum; auk félagslegra og hagrænna þátta sem óhjákvæmilega hafa áhrif á ákvarðanatöku við stjórn fiskveiða. Þetta er svokölluð vistkerfisnálgun og við sjáum það víða, ekki hvað síst innan Evrópusambandsins, að það skiptir kannski ekkert minna máli þegar kemur að ákvarðanatöku hvaða áhrif veiðarnar hafa félagslega séð heldur en hversu margir fiskar eru i sjónum.“

Markmiðin stangast á
Lögin um stjórn fiskveiða hér á landi eru gott dæmi um hvernig markmið geta stangast á. Í lögunum segir þau skuli stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Vandinn er hins vegar sá að það er ekki hægt að hámarka þetta allt á sama tíma. MareFrame verkefnið snerist ekki síst um að geta sýnt þessa ólíku valkosti varðandi stjórn fiskveiða, og hvaða áhrif ákvarðanir stjórnvalda um veiðar úr einum stofni hafi bæði á aðra stofna og félagslega og efnahagslega þætti sem tengjast fiskveiðum.

Nauðsyn þess að víkka út sjónarhornið hafi mörgum verið ljós undanfarin ár.

Loðnan eða þorskurinn
„Menn eru auðvitað búnir að vera að tala um mikilvægi þessarar nálgunar mjög lengi,“ segir Jónas, „Þekkingu og réttu tólin hefur hins vegar skort, en framlag MareFrame er mjög mikilvægt í því samhengi. Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur beint augum að vistkerfisnálgun við stjórn fiskveiða á undanförnum árum og aðrir munu örugglega fylgja eftir. En þetta er mikil áskorun. Það eina sem við getum gert er að koma með vísindalega þekkingu en svo eru það stjórnmálamenn sem ákveða hvaða eigi að hafa forgang.“

Hann segir spurningar um samspil stofna áður hafa komið upp hér á landi, til dæmis varðandi loðnu og þorsk.

„Af hverju leyfum við til dæmis ekki loðnunni bara að lifa og fóðra þorskinn? Þetta er pæling sem hefur verið rædd, en þá þurfa menn að gera sér meðal annars grein fyrir því að byggðarlög sem eiga mikið undir varðandi loðnu eiga hugsanlega lítilla hagsmuna að gæta hvað varðar þorsk.

Svipuð staða kom upp í MareFrame verkefninu þegar aðstæður voru kannaðar í Eystrasaltinu, en þar skarast verulega hagsmunir uppsjávarveiða og botnveiða.

„Það kom í ljós að útgerðir á uppsjávarveiðum vildu helst að þorskurinn yrði ofveiddur því hann var að éta frá þeim síldina og brislinginn, en þeir sem voru að veiða þorskinn vildu helst að uppsjávartegundirnar yrðu verndaðar betur,“ segir Jónas.

Vandinn við flökkustofna
„Það sem ég hef haft sérstakan áhuga á eru veiðar sem mörg lönd koma að,“ segir Anna Kristín og nefnir makrílinn sem dæmi. „Þarna er ákveðin fiskveiðistjórnun í gangi og ákveðið jafnvægi, en svo breytir makríllinn um útbreiðslumynstur. Hann kemur hingað og breytir vistkerfinu, sandsílið hvarf og það hefur áhrif á þær lífverur sem lifa á því, lundi og ýmsar aðrar tegundir.“

Þarna er sem sagt komið afar flókið samspil margra þjóða sem hver fyrir sig er með sitt fiskveiðistjórnarkerfi, sögulega veiðireynslu og kvótaúthlutun. „Draumurinn er náttúrlega að geta spáð fyrir um þróunina,“ segir Anna Kristín. „Að geta verið með líkön sem spá fyrir um hvernig fiskistonfar muni breyta um útbreiðslu næstu árin. Það kæmi sér líka vel fyrir iðnaðinn að geta lagað sig að breyttum aðstæðum í tæka tíð og farið að semja um veiðarnar fyrirfram í staðinn fyrir að það fari í milliríkjadeilur.“

Sjávarútvegsstefna í uppnámi
Jónas bendir á að makríllinn sé ekkert einsdæmi.

„Þeir í ESB eiga til dæmis við svipuð vandamál að stríða varðandi lýsing, sem var mikið við Suður-Evrópu og í Biskajaflóa. Hann er núna farinn norður á bóginn, kominn upp í Norðursjó og þar er vandamálið að Bretland, Danmörk, Holland og Frakkland eiga engan kvóta í lýsing.“

Hann segir að allar þær breytingar sem nú eiga sér stað m.a. samfara hlýnun loftslags valdi því að meginregla hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika sé í uppnámi.

„Þetta fyrirkomulag var stofnað fyrir um 35 árum og menn eru að átta sig á því núna að þetta gengur ekki upp lengur,“ segir Jónas.

Mikilvægt fyrir Matís
Þau segja samstarfið vera mikilvægt fyrir Matís og aðrar rannsóknaraðila hér á landi.

„Við erum til dæmis á leiðinni á fund í Brussel þar sem ræða á framtíðaráherslur fyrir rannsóknir af þessu tagi og þar verða Íslendingar mjög áberandi,“ segir Anna Kristín.

„Bæði Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) og Miðjarðarhafsfiskveiðiráðið (GFCM) eru þegar búin að innleiða niðurstöður úr MareFrame inn í sitt starf, og sínir það hver áhrif þessa verkefnis eru nú þegar orðin.

Jónas segir það hafa verið forvitnilegt að sjá muninn á milli einstakra hafsvæða í MareFrame verkefninu. „Eystrasaltið er frekar lokað kerfi og með mikið af vísindagögnum á bak við sig, en í Miðjarðarhafinu til dæmis vantar talsvert upp á gögn. Að ekki sé talað um Svartahafið þar sem skortur á gögnum er enn meiri. En með því að velja þau hafsvæði sem MareFrame einbeitti sér að náðum við að spanna þessi ólíku svæði, alveg frá því að vera auðug af gögnum yfir í svæði með lítið af gögnum.“

„Við vorum einmitt að prófa líkönin, bera þau saman og þróa á mismunandi vistkerfum m.a. með tilliti til þess hvaða gögn voru til staðar fyrir hvert svæði,“ segir Anna Kristín.

Jafnvægiskúnstin í sjávarútvegi gengur ekki aðeins út á að tryggja sjálfbærni veiðanna heldur huga jafnframt að félagslegum og efnahagslegum þáttum. MYND/ICES-AORA-FAO

Frá fyrsta vinnufundi MareFrame verkefnisins í Reykjavík árið 2014, þar sem saman voru komnir sérfræðingar frá fjölmörgum löndum. MYND/MATÍS

Störfin hjá Matís taka á sig ýmsar myndir. Anna Kristín Daníelsdóttir og Jónas Rúnar Viðarsson kanna gæði lýsis. MYND/MATÍS