Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur ákveðið að gefa út nýja kvótaráðgjöf fyrir makríl árið 2014. Ráðgjöfin verður birt í apríl eða byrjun maí.

Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna og haft eftir Leif Nöttestad, helsta talsmanni norsku hafrannsóknastofnunarinnar um uppsjávarfiska.

„Veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir makríl árið 2014 upp á 890.000 tonn var ekki byggð á vísindagögnum heldur á veiðum síðustu þriggja ára,“ segir Nöttestad. „Nú liggja fyrir meiri gögn, bæði endurheimtur úr merkingum makríls og upplýsingar frá alþjóðlegum togmælingum árið 2007 og frá tímabilinu 2010-2013.“

Ekki kemur fram í fréttinni mat á því hvort líklegt sé að þessi nýja ráðgjöf muni hafa áhrif á kvótasetningu makrílsins vegna veiða á yfirstandandi ári.