Norska hafrannsóknastofnunin ráðleggur í fyrsta sinn frá árinu 2021 að engar loðnuveiðar fari fram í Barentshafinu á næsta ári. Þetta hefur að vonum valdið miklum vonbrigðum hjá talsmönnum sjómanna í Noregi. Ekki er langt síðan gefinn var út núllkvóti fyrir Ísland af íslensku hafrannsóknastofnuninni. Endanlegur loðnukvóti í Barentshafi fyrir næsta ár verður þó ekki gefinn út fyrr en í þessari viku þegar norsk-rússneska fiskveiðinefndin heldur sinn fund.

Loðnukvóti norskra skipa í Barentshafi á þessu ári er um 117 þúsund tonn sem var mesti loðnukvóti í Barentshafi frá 2018.

„Mælingar þessa árs sýna að afkoma loðnustofnsins á þessu ári hefur verið mjög léleg, bæði hjá aldurshópnum eins til tveggja ára og hjá aldurshópnum tveggja til þriggja ára. Dánartíðnina má helst bera saman við það sem mældist 2003 og 2014 og niðurstöðurnar urðu þær þá að stofninn minnkaði miikið,“ segir Georg Skaret hjá norsku hafrannsóknastofnuninni.

Það verða því að öllu óbreyttu engar loðnuveiðar á vegum Norðmanna á árinu 2025. Mælt er með algjöru veiðibanni svo stofninn nái sér sem fyrst á strik á ný. Síðast var mælt með núllkvóta í Barentshafi árið 2021.

Náðist vel utan um mælingar

Samkvæmt norsku hafrannsóknastofnuninni er norsk-rússneski rannsóknaleiðangurinn í Barentshafi mikilvægasta uppspretta þekkingar á loðnustofninum þar í landi.

„Á þessu ári náðist vel utan um mælingarnar þótt veður væri óstöðugt. Einkum var vel farið yfir mikilvægar fæðuslóðir í kringum Storbanken og það var einungis landgrunnið vestan Svalbarða sem stóð út af af þeim svæðum þar sem vænta má að loðna finnist,“ segir Skaret.

Skaret bendir á að loðna er skammlíf tegund sem deyr fljótlega eftir hrygningu. Hún lifi sjaldnast lengur en í fimm ár og því sé magn, útbreiðsla og vöxtur mjög mismunandi frá ári til árs. Loðnan er líka lykiltegund í vistkefinu í Barentshafi og er fæða fyrir nokkrar aðrar tegundir, þar á meðal þorsk.

Frá því að loðnumælingar hófust í Barentshafi árið 1972 hafa orðið þrjú skýr hruntímabil í loðnustofninum og hefur stofninn þá haldist mjög lítill í að minnsta kosti fjögur ár í röð.

Síðustu tíu ár hafa sveiflur í loðnustofninum staðið skemur yfir en áður og þetta er í þriðja sinn á síðasta áratug sem stofninn er undir veiðiþolsmörkum.

Rannsakaðir í burtu?

Fiskebåt, samtök útgerðarinnar í Noregi, ná ekki upp í nefið á sér út af ráðgjöfinni og menn skafa ekkert af hlutunum þar frekar en á Íslandi þegar kvótaráðgjöfin er neikvæð. Fiskebåt bendir á að norska hafrannsóknastofnunin hafi ítrekað gefið til kynna að gefinn yrði út myndarlegur loðnukvóti í Barentshafi fyrir næsta ár. „Þess vegna er ráðgjöfin núna fyrir árið 2025 einkar letjandi og erfitt að sætta sig við hana,“ segir Christian Halstensen, stjórnarformaður Fiskebåt.

„Hvað hefur orðið um yngri, stóru loðnuárgangana sem mældust í fyrri leiðöngrum? Voru þeir rannsakaðir í burtu? Geta leiðangrarnir ekki mælt stærðina? Ég held að núverandi stýring á þessum málum hafi það í för með sér að Norðmenn verði af mörg hundruð milljónum norskra króna,“ segir Halstensen.