Verð á fiskimjöli og lýsi er hátt um þessar mundir í sögulegu samhengi. Verð á mjöli er um 2 þúsund dollarar á tonnið (230 þúsund ISK), að því er fram kemur í frétt á vefnum kyst.no. Þar segir einnig að þetta kunni að hafa áhrif á fóðurverð í fiskeldi.
Fiskimjöl og lýsi er aðalhráefnið í fóðri og norskir fiskeldismenn hafa því áhyggjur af þessari þróun. Verð á mjöli hefur hækkað jafnt og þétt frá aldamótum með einstaka niðursveiflum inn á milli. Verðið fór í sögulegt hámark á síðasta ári, tók þá nokkra dýfu en hefur hækkað á ný. Haldi fram sem horfir óttast norskir mjölkaupendur að verð á fiskimjöli fari enn á ný í sögulegt hámark á árinu 2015, segir ennfremur á vefnum kyst.no.