Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra Noregs gagnrýnir Færeyinga sérstaklega að loknum samningaviðræðunum um stjórn makrílveiðanna í Osló í dag.
,,Ég lýsi áhyggjum mínum af því að Færeyingar skuli ekki hafa sýnt góðan vilja til þess að stjórna makrílveiðum sínum og heldur ekki sýnt neinn sveigjanleika í þessari samningalotu, öfugt við það sem allar hinar þjóðirnar gerðu,” segir ráðherrann í fréttatilkynningu í dag.
,,Ennþá var of breitt bil milli samningsaðila til þess að samningar gætu náðst á þessum fundi. Það ber að harma því samningsleysið leiðir til mikillar ofveiði sem ógnar stöðu makrílstofnsins,” segir Lisbeth Berg-Hansen.
Fram kemur í fréttatilkynningunni að þjóðirnar hafi verið sammála um að vera áfram í sambandi til þess að leita leiða til lausnar deilunni sem allra fyrst, helst þannig að samkomulag um veiðarnar geti tekið gildi strax á þessu ári. Þá er bent á í fréttatilkynningunni að Færeyjar séu eina þjóðin sem ekki hafi ákveðið stjórn sinna veiða.
Þetta er sjöundi fundurinn í samningalotunni um makrílinn sem haldinn hefur verið.