Hrefnuveiðar bæði við Noreg og Ísland hafa á undanförnum árum verið langt undir því sem vísindamenn hafa talið óhætt að veiða.

Í dag var gefinn út hrefnukvóti fyrir norsk skip á þessu ári og er heimilt að veiða 888 dýr. Kvótinn hefur reyndar verið minnkaður verulega frá í fyrra þegar hann var 1.286 hrefnur en veiðin var hins vegar ekki nema 660 dýr á síðasta ári.

Frá árinu 1992 jókst útgefinn hrefnukvóti mikið og hefur aðeins veiðst um helmingur af honum árlega. Bátar á hrefnuveiðum á norsku hafsvæði undanfarin tvö ár hafa verið í kringum tuttugu.

Nú í vikunni tilkynnti Hafrannsóknastofnun ráðgjöf sína um hrefnuveiðar við Ísland. Talið er óhætt að veiða 224 dýr en veiðin hefur verið innan við 60 dýr flest undanfarin ár.