Norska hafrannsóknastofnunin ráðgerir viðbótarrannsóknir á makríl á þessu ári og hefur sótt um 2.000 tonna rannsóknakvóta í því skyni. Áformað er að kanna útbreiðslu makrílsins í efnahagslögsögu Noregs á tímabilinu október til desember og fara þær fram bæði með bergmálsmælingum og togmælingum.

Samtök norskra útgerðarmanna hafa lengi barist fyrir því að útbreiðsla makríls í norskri lögsögu sé kortlögð betur. Þeim finnst ekki nóg að gert með þessum áætluðu viðbótarrannsóknum og hafa lagt áherslu á að makríllinn sé líka skoðaður á tímabilinu frá miðjum ágúst og fram í september þegar þéttleiki hans í norskri lögsögu sé mestur.

Makrílrannsóknir norsku hafrannsóknastofnunarinnar á þessu ári verða að öðru leyti þessar: Þátttaka í fjölþjóðlegri kortlagningu á útbreiðslu makríls í Norðursjó með trolli í febrúar/mars með sérstakri áherslu á ókynþroska fisk. Frá apríl til júní verður kortlagning á útbreiðslu makríls í Noregshafi í samvinnu við Ísland, Færeyjar, ESB og Rússland. Í maí/júní verða gerðar tilraunir til makrílmerkinga vestan við Írland. Og í júlí verður magn og útbreiðsla makríls í Noregshafi og aðliggjandi höfum kortlögð í tengslum við almennar vistfræðirannsóknir.

Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna.