Norsk-íslenski síldarstofninn er á uppleið samkvæmt mælingum norskra, íslenskra og færeyskra fiskifræðinga í sumar, hver á sínu svæði. Þetta kemur fram í gögnum sem lögð voru fram á vinnufundi fiskifræðinga sem nú stendur yfir á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Frá þessu er greint á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Bergmálsmælingar á norsk-íslensku síldinni á rannsóknarsvæðinu í júlí og ágúst í sumar sýna að stofninn hefur stækkað frá mælingum á sama tíma í fyrra. Ein af ástæðum þess er að 2009 árgangurinn, fjögurra ára síld, kemur nú inn í mælinguna sem fullorðinn fiskur.

Sumarið 2009 mældist norsk-íslenski síldarstofninn 13,6 milljónir tonna en árið eftir var hann kominn niður í 10,7 milljónir tonna. Í fyrra mældust ekki nema 7,3 milljónir tonna og í leiðöngrunum í sumar mældust 8,6 milljónir tonna.