Fiskveiðisamningur Noregs og Grænlands fyrir árið 2013, sem nú hefur verið undirritaður, felur í sér litlar breytingar frá samningnum sem gildir fyrir yfirstandandi ár. Einu breytingar eru þær að Norðmenn fá 300 tonnum meiri úthafskarfakvóta en í staðinn er þorskkvóti Grænlendinga aukinn um 300 tonn.

Þorskkvótinn sem Grænlendingar fá frá Norðmönnum í Barentshafi verður 3.500 tonn á næsta ári, ýsukvótinn 1.050 tonn og ufsakvótinn 1.000 tonn. Að auki kemur 260 tonna kvóti fyrir meðafla.

Norðmenn mega áfram veiða 900 tonn af grálúðu við Vestur-Grænland og 275 tonn við Austur-Grænland. Lúðukvótinn við A-Grænland verður 160 tonn sem fyrr. Þá mega Norðmenn sem fyrr veiða 750 tonn af þorski í grænlenskri lögsögu og 400 tonn af karfa, en úthafskarfakvótinn er aukinn úr 1.500 tonnum í 1.800 tonn. Auk þessa er úthlutað 150 tonnum vegna meðafla.

Norska sjávarútvegsráðuneytið skýrir frá þessu.