Noregur og Færeyjar hafa gengið frá fiskveiðisamningi um gagnkvæmar veiðar í lögsögum landanna 2014. Þetta er fyrsti samningur ríkjanna frá árinu 2010.

Helstu atriði samningsins eru þau að norsk fiskiskip mega veiða 1.250 tonn af löngu/blálöngu, 1.025 tonn af keilu og 737 tonn af öðrum tegundum í færeysku lögsögunni. Þar að auki mega norsk skip veiða 80 þúsund tonn af kolmunnakvóta sínum við Færeyjar.

Á móti fá Færeyingar að veiða 2.000 tonn af þorski, 400 tonn af ýsu, 300 tonn af ufsa og 100 tonn af öðrum tegundum í norskri lögsögu. Að auki geta Færeyingar veitt í norsku lögsögunni allt að 10 þúsund tonn af þorski og eitthvað af ýsu og öðrum tegundum sem þeir fá í gegnum skiptisamning við Rússland.

Norðmenn fagna þessum samningi. Einkum telja þeir mikilvægt að fá að veiða kolmunna í færeysku lögsögunni. Einnig er það kærkomið að norsk línuskip fái nú að veiða við Færeyjar á ný.