Í síðustu viku fékkst gott verð fyrir kolmunna til manneldis að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag. Þá var landað um 13 þúsund tonnum af kolmunna í Noregi sem veiddust á alþjóðlegu hafsvæði suðvestur af Írlandi.

Norsk skip hafa veitt vel af norsk-íslenskri síld undanfarnar 6 vikur en það dró úr veiðinni í síðustu viku en þá var landað 40.400 tonnum af síld. Meðalgreiðslur fyrir síld á vertíðinni eru 2,21 króna norsk á kíló fyrir síld til manneldis (um 48 krónur íslenskar) en 2,09 krónur fyrir síld í bræðslu.

Loðnuveiðar í Barentshafi gengu vel í síðustu viku. Norsk skip veiddu þá um 36 þúsund tonn af loðnu. Lítill áhugi virðist vera á því að kaupa loðnu af skipunum. Meðalverðið veldur vonbrigðum og er það nálægt lágmarksverði sem er 1,80 norskar krónur á kíló (49 krónur íslenskar). Stærðin á loðnunni er 37-45 stykki í kílói og í lok vikunnar var hrognafyllingin komin í 11%.

Af 13.100 tonna kolmunnaafla norskra skipa í síðustu viku fóru 5.350 tonn til manneldisvinnslu. Hráefnisverð er nokkuð gott eða 2,20-2,30 krónur norskar á kíló (48-50 krónur íslenskar) og 1,59-1,66 krónur norskar fyrir kolmunna til bræðslu.