Áframeldi á þorski í Noregi er talið borga sig, að því er fram kemur í niðurstöðum athugana á vegum norsku fiskrannsóknastofnunarinnar.

Sérfræðingar stofnunarinnar segja að sumir fiskkaupendur séu tilbúnir til að greiða umtalsvert hærra verð ef þeir geta treyst því að fá fiskinn á fyrirfram ákveðnum degi í viku hverri.

Þeir segja að hugmyndin byggist á því að veiða villtan þorsk, flytja hann lifandi í kvíar og ala hann þar til hann hafi tvöfaldað þyngd sína. Þorskinum er slátrað þegar framboð af villtum þorski er lítið og verðið hátt.

Í fyrra voru um tvö þúsund tonn af þorski veidd til áframeldis í Noregi sem er lítið brot af heildarveiðinni. Samkvæmt útreikningum sérfræðinganna getur áframeldi gefið af sér góðan arð. Þegar búið er að draga frá kostnað við veiðar og eldi telja þeir að hægt sé að fá um 2 norskar krónur meira fyrir kílóið en ella, eða 43 krónur íslenskar.

Ekki kemur fram í fréttinni hvort Norðmennirnir hafi kynnt sér afkomu af  áframeldi á þorski hér á landi.

Heimild: www.fis.com