Samtök í uppsjávarveiðum og –vinnslu í Evrópusambandinu hafa hvatt Karmenu Vella, sjávarútvegsstjóra ESB, til að koma í veg fyrir einhliða aukningu Norðmanna á hlut sínum í veiðum á kolmunna á þessu ári.
Þetta kemur fram á vef FishUpdate. Þar segir jafnframt að rétt fyrir næsta funda strandríkja um stjórn veiða á kolmunna, sem fram fer í þessari viku, hafi Norðmenn ákveðið einhliða að auka kolmunnakvóta sinn um 40%.
Samtökin (Producer Organisations in the EU) fordæma framferði Norðmanna. Þau vilja að Vella sjávarútvegsstjóri bregðist bæði skjótt og harkalega við og krefjist þess að Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, taki þessa ákvörðun til baka.
Strandríkin, ESB, Noregur, Færeyjar og Ísland, eiga enn í viðræðum um stjórn kolmunnaveiða á árinu 2015. Síðasta viðræðulota var 19. desember síðastliðinn og þá var komist að samkomulagi um heildaraflamark á árinu 2015. Næsti fundur hefst í London á morgun.