Í lok síðasta árs var ljóst að það stefndi í met í sölu afla í gegnum Norges Sildesalgslag, norska síldarsölusamlagið, sem sér um sölu á uppsjávarafla í Noregi. Nú liggja endanlegar tölur fyrir og heildarsalan á árinu 2011 nam 8,5 milljörðum norskra króna, eða 178,5 milljörðum íslenskra króna, og var því í samræmi við björtustu vonir.
Í tonnum talið dróst salan reyndar aðeins saman árið 2011 frá árinu áður. Sölumetið skýrist því fyrst og fremst af miklum verðhækkunum á lönduðum uppsjávarafla.
Í heild fóru um 1,5 milljónir tonna af uppsjávarfiski í gegnum Norges Sildesalgslag á árinu og var aflinn að langmestu leyti seldur á uppboðsmarkaði. Á árinu 2010 nam salan 6,8 milljörðum króna þannig að 8,5 milljarða sala á síðasta ári þýðir um 25,7% aukningu í verðmæti milli ára.