Gengið hefur verið frá sölu á 54,5% hlut í Vélfagi ehf til rússneska fyrirtækisins Norebo, eins stærsta útgerðarfélags heims. Stofnendur Vélfags, Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson og Ólöf Ýr Lárusdóttir seldu hlut í félaginu og um leið var hlutafé aukið. Kaupverð er trúnaðarmál.
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu fyrirtækisins í dag.
Þar segir: „Viðskiptin eru afar ánægjuleg fyrir Vélfag og gríðarleg viðurkenning fyrir eigendur og starfsfólk fyrirtækisins. Mikill fengur er í Norebo sem hluthafa og samstarfsaðila, kaupin styrkja mjög stoðir Vélfags og búa fyrirtækið undir aukið þróunarstarf og verulega aukningu í framleiðslu.“
Vélfag var stofnað árið 1995 af þeim Bjarma og Ólöfu. Fyrst í stað var fyrirtækið í þjónustu við fyrirtæki í sjávarútvegi en fljótlega hófu starfsmenn Vélfags að þróa og framleiða vélar fyrir fiskvinnslu.
Vélfag hefur hlotið nýsköpunarverðlaun og á síðasta ári fékk það nýsköpunarstyrk að upphæð 50 milljónir frá Rannís Tækniþróunarsjóði til þróunar á vél, sem er í einkaleyfisferli. Í farvatninu eru stórir sölusamningar.
Fiskifréttir fjölluðu ítarlega um fyrirtækið í Tímariti Fiskifrétta nýlega.
Stofnendur Vélfags, Bjarmi og Ólöf, segja í fréttinni:
„Við fögnum þessum merka og mikilvæga áfanga í sögu Vélfags. Við erum sannfærð um að þetta sé mikið gæfuspor enda mun aðkoma Norebo skjóta styrkum stoðum undir Vélfag til að takast á við krefjandi framtíð og tryggja jafnframt áframhaldandi þjónustu og gæði fyrir bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini. Framundan eru gríðarmiklar áskoranir í vinnslu og meðferð sjávarafurða í breyttri heimsmynd. Við hlökkum mikið til að takast á við þessi spennandi tækifæri með því öfluga og metnaðarfulla fyrirtæki sem Norebo er.“
Stjórn félagsins munu skipa Finnbogi Baldvinsson fyrir hönd Bjarma og Ólafar, en aðrir í stjórn eru Soling Yip, fjármálastjóri Norebo Overseas Holding og Pavel Kosolapov, framkvæmdastjóri tæknimála hjá Norebo Group.